hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

fimmtudagur, desember 11, 2008


Jamm...

Ég er á landi elds og krísa. Bloggið bíður betri tíma með blóm í haga, held það sé skynsamlegt, þar til ég er aftur á faraldsfæti... Búinn að fara í Bláa lónið og Sundhöllina þar sem tíminn stendur kyrr, borða flatköku, gefa ömmu Tilsner koss á kinnina, fara á Kaffitár, sjá rosalega marga fræga (á Íslandi eru allir hmmm, frægir), hitta dreka og drekka í mig undarlegt ráðleysis- og áfallsandrúmsloft á sögueyjunni. Heimilisfang mitt í Danmörku er Shurgaard geymslubragginn í Ishöj, ef ykkur langar að senda mér póstkort þangað.

Kreppa, hvað er nú það? Ég held barasta að Ísland sé of fámennt til að reka hinar ýmsu lýðræðislegu stofnanir, fjölmiðla og fyrirtæki, er það ekki rauði þráðurinn í gegnum þetta blessaða hrun??? Skál og góðar stundir...

|

föstudagur, október 31, 2008


Mér finnst...

-Tom Waits frábær.
-Og síðar nærbuxur í vetrarkuldum líka.
-Blogg sjálfmiðuð og deyjandi.
-Skondið að margir skuli fá sömu hugmyndina sem virðist í andrúmsloftinu en að aðeins einn framkvæmi.
-Og enn skondnara að vatnið í skrokknum á okkur skuli geta sagt til um hvar við drukkum það.
-Ísland einkennilegt land, eða öllu heldur Íslendingar.
-Slæmt að fá martröð um húsfélagsformennsku.
-Fyndið ef gróðurhúsaáhrifin reynast bara vera bóla, svona eins og internetið.
-Rauðvín gott meðal við eirðarleysi.
-Orðið sjúkdómur merkilegt, dæmdur til sýki?
-Heimildamyndahátíðin CPH DOX spennandi.
-Drepfyndið að nú séu Norðmenn skyndilega vinsælli en Bretar og Bandaríkjamenn á landinu bláa.
-Peningar sem hægt er að handfjatla mun skárri en hugtök yfir fjármuni úr lofti.
-Synd að fólk skuli hætt að lesa Burda.
-Álandseyjar fremur óspennandi.
-Merkilegt að U skuli vera alþjóðlegt hikhljóð, þegar maður veit ekki hvað maður á að segja.
-Súrt í broti að eiga tölvu í andarslitrunum.
-Það ekki frétt, þótt svo DRRRR hafi sagt frá því, að errið sé að hverfa úr dönskum framburði.
-Að leiðtogi Lappa ætti að kalla sig LapTop.

|

þriðjudagur, október 28, 2008

Fyrst lífið er það sem gerist þegar maður hefur önnur plön, þá er ég að lifa lífinu. Það er skemmst frá því að segja að ég er búinn að:

- skalla rúðu í verslun. Vandræðalegt og klárlega ekki hápunktur liðinna vikna.
- eta currywurst svokallað í höfuðborg Þýskalands.
- steyta belgískar frelsiskartöflur úr hnefa í Brussel.
- snæða súrkál og svínapylsur með Lottu Lille í Strassborg (og flatböku í Lúxemborg).
- sjá Kossinn, í austurhluta sömu borgar.
- fá fréttir af vini á leið til útlanda að endurvinna.
- skoða Sachsenhausen útrýmingarbúðirnar, í grenjandi roki, rigningu og sól.
- hjálpa ótal erlendum blaðamönnum að ná í slegna Íslendinga og tafsandi embættismenn.
- átta mig á að við Bubbi hljómum eins þegar við tölum dönsku.
- láta íslenskar bölsýnisfréttir sem vindhviðu um eyru þjóta og tekið meðvitaða ákvörðun um áframhaldandi afneitun. Ég er Svíi.
- hlusta á Steingrím Joð í Jónshúsi.
- spjalla við Kurt Westergaard. Fínn kall.
- fara á trúnó með finnskri stúlku.
- láta mér þykja vænt um krass þriggja ára frænku.
- hugsa með mér að Gorbachev sé svalur.
- lesa þá miklu visku að næturstaður undir kókospálma sé óskynsamlegur.
- svipast um hjá STASI.
- kúra í litla bróður.
- velta fyrir mér mýtunni um góðan smekk homma. Hún er röng.
- hitta fjölmiðlafulltrúa finnsks sendiráðs, í jakkafötum og ósamstæðum skóm. Það er fulltrúinn, ekki ég.
- lesa um óbærilegan léttleika íslensku krónunnar, í Financial Times.
- hugsa til aldraðs bróður míns á afmælisdegi hans.
- skvetta í andlitið á mér.
- fylgjast með konu með lystarstol. Hún líkist Ídu í Kattholti Lindgrens.
- fá að vita að svona punktablogg veki fleiri spurningar en það svari. Smáatriðin verður Beta Baun að fá yfir kaffibolla.

|

miðvikudagur, október 01, 2008

Frá því ég bloggaði seinast hef ég...

- gefið mér að þessi fyrrum fegurðardrottning og varaforsetaframbjóðandi, gegni einn daginn valdamesta embætti heims.
- komist að því að punktablogg hentar mér laaaangbest.
- samglaðst litlu systur yfir ævintýrum í Perú.
- lesið að 125 orð á mínútu, sé meðaltalið í samtali, en að heilinn ráði hins vegar við 6-700 orð á mínútu - sem skýrir væntanlega af hverju við hlustum aldrei á hvort annað, heldur skipuleggjum kvöldið, hugsum hvað okkur langi í kaffi, um rifrildi gærdagsins og um hvað bólan á nefi viðmælandans sé stór.
- pakkað upp úr og ofan í töskur, og á eftir að gera það oft næstu mánuði.
- misst mig í bókakaupum á Amazon.
- þótt lífið kaldhæðin en skemmtileg tík.
- sagt upp íbúðinni við Söerne sem þýðir að ég verð á faraldsfæti innan tíðar.
- hafið sambúðarslit við sambýliskonuna. Ðis iss ðí ennd off an era. Morgunkaffi eða kvöldrauðvínsglas á bekk við vötnin, heyra brátt sögunni til.
- endanlega sannfærst um að mér þyki betra að hlusta en að tala.
- fattað að ég hef ekki haft svona mikinn tíma til að hugsa og láta mig dagdreyma, í laaaangan tíma.

- Bandarískir kjósendur létu John Kerry gjalda þess á sínum tíma að hann kynni frönsku. Nú geldur Barack Obama þess að hann veit hvað rucola er. Ályktun; tali maður evrópskt tungumál eða kunni að greina á milli iceberg salats og rucola, er maður úr tengslum við bandarískan almenning.
- dreymt að það ætti að gera mig að húsfélagsformanni. Hef aldrei verið jafnreiður.
- velt fyrir mér arabískunámi í Sýrlandi.
- hringt í dönsku leyniþjónustuna.
- tekið vítamínin mín.
- farið offari á Fésbók. Hún er nýmóðins. Móðir mín notar msn eins og gps tæki, það hjálpar henni að vita hvort börnin hennar eru á lífi, en nú bíð ég bara eftir að hún uppgötvi Status Öppdeit á Fésbók. Þá fær hún ekki aðeins að vita að börnin hennar eru lifandi, heldur hvað þau eru að gera þá og þá stundina.
- svarað óteljandi spurningum um íslenskan efnahag. Þar kom vel á vondan. Mér er ekki lengur um sel. Fer þetta ekki að verða ágætt bara?

- kynnst konu sem vann við hundasjampóframleiðslu á Álandseyjum og jöklasérfræðingi sem fagnaði seinustu áramótum í hitabylgju (-16c) á Suðurskautinu.

Orð dagsins er akarn. Flettiði því bara upp, það er skemmtilegt...

|

sunnudagur, september 21, 2008


Frá því ég bloggaði seinast hef ég...
- bæði verið hnugginn og óskaplega glaður.
- sigrað í frjálsum stíl í Kvennaburði; óformlegri skemmtan norrænna blaðamanna. Hljóp 50 m með lesbíska valkyrju á bakinu, á 12,9 sek.
- upplifað syndaflóðið í Reykjavík, gert Urði rúmrusk og drukkið með henni gulrótarsafa.
- fundist ég lukkunnar pamfíll. - Hvað er pamfíll?
- velt fyrir mér offramboði á bleikum og bláum barnafötum, á kostnað brúnna og appelsínugulra, og mögulegra áhrifa á kynhlutverk og kvennabaráttu dagsins í dag. Ég minnist gulra rúllukragabola og brúnna flauelissmekkbuxna úr mínu ungdæmi.
- klökknað yfir öllu þessu góða fólki, sem ég á og var að eignast.
- lesið Naomi Klein, The Shock Doctrine og Dave Eggers, What is the What?
- saknað vina í löndum hér og þar.
- Hótað Guðlaugi vinslitum, en það er svo sem ekkert nýtt.
- bætt á mig 1 kg af mör.
- hangið ótæpilega á Kaffitári.
- étið hrefnu, harðfisk og pulsu með öllu, í hífandi roki í Reykjavík.
- ritskoðað myndbirtingar á Fésbók.
- og jafnframt fengið góðfúslegt leyfi tryggrar vinkonu fyrir birtingu annarrar myndarinnar við þetta blogg. Hin myndin hér að ofan er af fjallmyndarlegri mágkonu minni.

- gert mitt besta, í samstarfi við UNICEF, um að bjarga íbúum St. Vincent. Flókið og langt mál.
- lesið um nýjustu starfsgreinina í Kaupmannahöfn, ofurhetjur sem vaska upp og leysa úr hvunndagsvanda, gegn þóknun.
- gefið nýja diski Emilíönu góða dóma.
- og já, ég hef líka ákveðið að leggja niður Kjararáð og leggja svo til að íslenska þjóðin verði loks flutt á jósku heiðarnar, svo hún þurfi ekki lengur að hokra í örreytiskotum íslenskum sem stefna hraðbyri í gjaldþrot.
- þótt að það að lesa slæma þýðingu sé líkt og að stunda ástarmök í buxum.

|

þriðjudagur, september 02, 2008



Okkur Möttu...

...finnst að lífið sé að taka okkur í rassgatið. Afsakið orðbragðið. Þegar Mette lagði stund á meistaranám í Árósum fyrir nokkrum árum heimsóttum við Ásdís hana, í Höegh Guldbergsgade. Núna, nokkrum árum seinna, er ég aftur kominn í sömu götu, beint á móti gamla húsinu Möttu og hún víðs fjarri.

Er á tveggja mánaða námskeiði í Blaðamannaháskólanum hér í borg. Besta vinkona mín það sem af er heitir Lotta, samt ekki halta Lotta, svo ég vitni í Lindgren. Lotta er þriggja barna móðir, sérfróð um her og varnir Norðurlandaþjóða, og um það bil að gera sér ljóst að með einlægri og fumlausri framkomu minni, er ég ekki að fara á fjörurnar við hana. Í gær skildi ég 43% af sænskunni hennar en í dag 51%. Við hlæjum bara þeim mun meira.

Hér er stórskrýtinn Finni, kynlegir kvistir, norskur sérfræðingur frá Fiskaren (hmmm), sérfræðingur um ritstíflur og ráð við þeim; hér er töluð blandinavíska og hér er hellingur af fréttafíklum og pennum, heilluðum af Íslandi. Hér eru líka Danir sem hlakkaði í við skipbrot Nyhedsavisens í gær. Það fannst mér undarleg og ástæðulaus hefnigirni. Kúrsinn er á leiðinni til Strassborgar, Lúxemborgar, Brussel, Berlínar og heimsborgarinnar Reykjavíkur, hvað annað. Fyrrum kollegi minn Pálmi Jónasson sat álíka kúrs fyrir fjöldamörgum árum. Þeir í Blaðamannaháskólanum eru enn að tala um leðurbuxurnar hans.

Annars er fósturdóttir mín Jódís flutt til Íslands, og það hryggir mig dálítið.

|

mánudagur, ágúst 25, 2008

Sambýliskona mín...

...sem í dag skilaði sér heim eftir alltof langa fjarveru, er spök. Hún hafði í dag lög að mæla þegar hún sagði að yfirleitt fengi maður allt sem maður vildi, nema bara ekki endilega þegar maður óskaði sér þess, eða á þeim tíma þegar maður helst vildi. Þetta reyndist eiga við um daginn í dag. Og svo líka vott gós aránd, komms aránd... Góðar stundir.

|