hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

föstudagur, október 10, 2003

Jebb, það er ég sem er á forsíðu Dagskrár vikunnar. Púff, nú fyrst fer frægðin að stíga mér til höfuðs. Bara ein spurning, af hverju er ég hafður út úr fókus og af hverju nota þeir bara nefið á mér, augnhár og augabrún? Mér er spurn. En stelpan, kollegi minn módelið, er alla veganna sæt. Og við bíðum spennt eftir því sem gerist eftir níu mánuði eins og segir í texta auglýsingarinnar... Gaman að þessu. Gisti hjá Gulla í nótt, át snúða og nammi og horfði með honum á heimildamynd um bandaríska skáta og homma sem ekki mega vera skátar. Eins og vanalega reytti Gulli af sér sögur af skrýtnum uppákomum og fólki... Það yrði of langt mál ef ég ætlaði að segja frá því öllu hér.
Ölstan í kvöld og líka annað kvöld, sem sagt ekkert djamm þessa helgina.

|

fimmtudagur, október 09, 2003

Hjúkk, ég var þungavigtarfyrirsæta fyrir Íslandsbanka í júní eins og glöggir lesendur ef til vill muna. Lá uppi í rúmi með stelpu í klukkustund og var myndaður í bak og fyrir. Leggst nefnilega ekki upp í rúm með stelpum nema ég fái fyrir það tugi þúsundir króna. Auglýsingin átti að birtast í september í dagblöðum á heilsíðu en það virðist hafa orðið töf á því. Ég var farinn að óttast að myndirnar hefðu ekki verið birtingarhæfar... var ég þá svona mikið sveittur á þeim. En nú hefur mér borist til eyrna að einhver hafi þekkt hárafar mitt á Íslandsbankaauglýsingu í Dagskrá vikunnar! Ég setti nefnilega ákveðin skilyrði um hvar auglýsingin mætti birtast, þ.e. bara í flottustu blöðunum, eins og Dagskrá vikunnar. Og ég sagði hárafar því ég held það sjáist varla mikið meira en skallinn á mér; við módelin, stelpan og ég, lágum nefnilega undir sæng og það rétt glittir í nefbroddana á okkur á myndunum held ég. Ég er náttúrulega svo illa mynntur að það varð að fela það á einhvern hátt. En ég varpa sem sagt öndinni léttar ef að auglýsingin er komin í blöðin. Hjúkk. Nú er leiðin víst bara upp á við í módelbransanum... Alltaf er maður að gera það gott.
Gaman Hjörtur ef þessar reglur um skólit geta auðveldað þér lífið, bara ef lífið væri nú svona einfalt. Jóa þurfti auðvitað að flækja það. Hún spurði hvað maður gerði ef karlmaðurinn væri í rauðum skóm en svo í karrígulum jakka og í illa samsettum fötum... Er hann þá samt hommi? Þar lágu Danir í því. Ég hallast að því að hér sé aðeins um að ræða karlmann sem kann ekki að klæða sig; hann hefur villst og lent á Hawai-skyrtu, karríjakka og ljótum rauðum skóm. Annars las ég einhvers staðar í dag að það væri engin furða að homma kynnu að klæða sig, þeir hafa jú eytt mörgum árum í skápnum...

|

miðvikudagur, október 08, 2003

Er að ljúka erlendri vakt, ég er Erlendur í dag. Gulli var að spyrja mig hvort rauðir skór væru öruggt merki um samkynhneigð. Ég geri ráð fyrir að hann hafi sem sagt elt strák í rauðum skóm upp í Háskóla og veist að honum. Þori varla að spyrja. En já, rauðir skór er óyggjandi merki um kynvillu. Séu skórnir einlitir rauðir er viðkomandi karlmaður sem ber þá, rammvilltur. Magn rauða litsins segir til um öfuguggaháttinn, séu skórnir rauðir til hálfs, er viðkomandi laus í rásinni og til í hvað sem er. Þetta er víst vísindalega sannað.
Ég var í strætó í gær sem er ekki í frásögur færandi. Nema hvað, hefði Matta verið með mér, þá hefði hún ælt. Í strætó var þroskaheftur maður sem að boraði í nefið á sér af mikilli einurð svo aðdáunarvert var. Hvort er ég skrýtnari að horfa á hann eða hann skrýtnari að bora? En alla veganna, það var kalt í veðri þannig að það voru engir kögglar uppi í nefinu á honum, heldur bara svona glært gums. Hann studdi einum fingri ofan á nösina og skóf svo fimlega með þumlinum allt það sem fyrir varð. Svo nuddaði hann alltaf fingrunum tveimur saman eins og hann væri að reyna að búa til kúlu, á milli þess sem hann stakk þumlinum upp í sig. Og hann fylgdist líka gaumgæfilega með umferðinni, hausinn hreyfðist þegar hann horfði á bílana en þumallinn haggaðist aldrei, á kafi í nösinni á honum. Þetta var bara svona dæmisaga úr daglega lífinu. Það er svo ljúft nefnilega að ferðast með strætó, en bara ef maður þvær sér hendurnar.
Svo skilst mér að Gulli og Þórir ætli að gera íslenskan þátt með þann bandaríska, Queer eye for the straight guy. Mér skilst það sé alls ekki ljóst hvert hlutverk mitt verður í honum og hef ég af því talsverðar áhyggjur.
Meðan ég man, strákurinn sem Sigga systir kyssti um helgina, var í grímupartýi, held ég, hann er ekki dags daglega í pilsi. Sigga var útbúin sem sveitt fótboltastelpa og það hefur vissulega alltaf ákveðinn sjarma.
Þetta verður ekki lengra að sinni, góðar stundir.

|

mánudagur, október 06, 2003

Úbs, þá er ég á grænum sjó. Lærifaðir minn á næturvöktunum, Kristófer, er búinn að útskrifa mig og því er fjandinn laus. Þá get ég farið að senda út þagnir á Rás eitt og Rás tvö að næturlagi þegar ég verð á vaktinni og mun verða á í messunni á öllum tökkunum og sleðunum. Hitti einmitt hana Sunnu í gærnótt og hún var að gera grín að því að ég væri á tökkunum, maður sem gæti ekki einu sinni sett inn linka á bloggsíðuna sína.
Og talandi um páfagauka, þessir dagar eru helgaði páfagaukum. Í gærnótt var á Ölstofunni kona með risastóran hvítan gauk á öxlinni. Maður þurfti að nudda augun til að trúa þeim. Svo fékk hún sér bara í glas, gaukurinn var hinn rólegasti, og svo létu þau vel að hvort öðru. Ég held maður ætti að fá sér gæludýr til að fara með út á jammið, þá kynnist maður fullt af fólki sem vill kynnast dýrinu manns (ekkert tvírætt við það) og þá mun fólk segja dýrasögur og leiða saman hesta sína, ef svo má segja. Bráðsnjallt. Annars var brjálað að gera á Ölstofunni í gærkvöld og gaman í vinnunni. Þórir kom, Brynhildur, Binna, Kolla, Jón Atli og fleiri og fleiri. Og ég blandaði kokkteila eins og vitlaus væri, sem óður maður. Settumst niður eftir vaktina og fengum okkur bjór. Með okkur var Jói Ara, sá sem rekur Leikhúskjallarann, hann sagði okkur sögu úr partýi þar sem bolla var í boði. Í henni var glimmer sem svo olli því að menn og konur voru að pissa og sprauta glimmeri í tvo mánuði eftir að hafa innbyrt bolluna.
Er að klára næturvakt og er á heimleið. Fór á Cafe Cosy með Gulla og Þóri áðan, mjög ljúft, umræðuefnið var ekki pólitík, eyðing regnskóganna eða óðaverðbólga. Þau umræðuefni sem við dekkum þegar við komum saman eru sjaldnast af þessu tagi. Ekki það að við séum neitt grunnir, neinei. Annars höldum við Gulli að við kjöftum Þóri alltaf í kaf þegar við þrír hittumst.
Meðan ég man, Sigga systir kysstir strák um helgina... Hann var í pilsi.
Svo höldum við Þórir að við fáum fleiri komment í kommentakerfin okkar ef við bloggum á aðeins persónulegri máta. Við erum sumsé að taka okkur tak.
Annars eru þetta skrýtnir dagar, ég vinn á næturnar og sef svo nokkrar klukkustundir, fram yfir hádegi. Þetta skilur sér ekki í aukinni fegurð, heldur í auknum baugum og kröftugra heróínneytenda-lúkki.
Eftir kaffið með hommunum kíkti ég á Brynhildi fréttakonu á Þórsgötunni í nýju íbúðinni, mætti í afgangana í matarboðinu hennar sem runnu ljúflega niður. Þar var líka Hanna, bráðskemmtileg stelpa sem var vinkona Péturs okkar, sem er í læknisfræðinni, þegar þau voru lítil; saman í læknisleikjum og svona...
Gulli og Þórir kunna því næstum illa að ég skuli blogga nær daglega. Ég er sem sagt hættur að hringja í Gulla til að segja honum að ég hafi bloggað. Það gerði ég á tímabili þegar ég bloggaði á tveggja vikna fresti.
Og já, varðandi bökunarhneigðina, þið munið kenninguna um kynorku sem ekki fær rétta útrás? Ég þarf í framhaldi af því að játa dálítið. Ég bakaði í dag, alveg óvart, gekk í leiðslu fram í eldhús og hristi fram úr erminni eina ostaköku með eplum, kanil og hafrakexbotni. Bara rétt si svona. Ég vona líklega að einhver grípi inn í þessa bökunaráráttu. Það hefur hins vegar ekki enn gerst. Hví? Maður spyr sig.
Við Gulli erum að plana að leggjast í víking næsta haust. Ég ætla út í master, e.t.v. til Kaupmannahafnar. Og svo er alltaf möguleiki á að fara til Ítalíu til að halda ítölskunni við. Gulli er til alls vís. Hann gæti þess vegna farið til Indónesíu.
Næsta sunnudagsmorgun er brunch hjá mér. Þar mun hittast nýstofnaður félagsskapur sem heitir held ég Farandpannan. Löng og flókin saga á bak við það... Hver ætlar að segja hana? Ég er alla veganna handhafi Farandpönnunnar núna : )
Ég fór í bíó í dag, á Mír á Vatnsstíg. Sá heimildamynd um umsátur Þjóðverja um Leníngrad/St. Pétursborg. Myndin var mjög góð og mér fannst ég ógurlega menningarlegur. Druslan hún Dagný hafði ætlað með mér en forfallaðist. Svo langar mig að sjá Dogville í bíó.
Jæja, þá töltir maður heim á leið. Góðar stundir.

|