hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

mánudagur, nóvember 19, 2007


Hnátan á myndinni heldur að frændi sinn komi með snjóinn. Ég heimsótti hana fyrir rúmri viku, hjólaði upp á Frederiksberg í fyrstu slyddu vetrarins í Kóngsins Kaupmannahöfn, og var þess vegna veðurbarinn og allur í snjó, þegar ég loks komst á áfangastað. Síðan þá tengir hún mig við snjó. Og kannski Nutella og það að striplast líka. Kann því ágætlega... Myndin er annars tekin í sól og sumri á Íslandi, allur snjór víðs fjarri.

Það er klárlega sambýliskonu minni að kenna að ég á fimmtán mínútum innbyrti 200 grömm af rjómaosti, 50 grömm af brauðosti og 150 grömm af flögum. Sársvangur keypti ég rusl handa okkur, á leiðinni heim úr vinnu, til að eiga rómantískt síðkvöld, en þá var hún ekki heima. Geymsluþol varnings eins og þessa er ekkert, á heimili okkar að Bitru.

Frá því ég bloggaði seinast hef ég...
- kennt gömlum vini ný orð; kotroskinn, skrafhreifinn, pervisinn og ímugustur.
- séð heimildamyndir um mansal og Íraksstríðið á CPH DOX hátíðinni og fengið til þess lánaða unnusta eldgamals vinar.
- hlakkað til sumarbústaðaferðar um næstu helgi.
- farið á Bubbatónleika með litla bróður og co. Líklega 20 ár síðan ég sá Bubba seinast spila.
- dreymt danska pólitík nótt eftir nótt eftir nótt.
- bakað Frankfurter krans eftir uppskrift ömmu Lottu.
- mælt mér mót við Betu Baun, hinn geðþekka bloggara, til að tala um tilfinningar okkar og verð á grænkáli.
- gleymt afmælum.
- uppgötvað Sjælör í Kaupmannahöfn.
- hugsað til nýju þulunnar.
- séð Mikkel í Se og hör.
- rætt andlitsfarða við þjónustufulltrúa Landsbankans.
- drukkið öl í Kristjánsborg.
- fjárfest í mublum á mublur ofan; sér ekki enn fyrir endann á því.
- komist að því að kápa segir klárlega til um hvort bók sé góð eða ekki. Á náttborðinu þessa stundina er Kingdom of Ashes eftir Robert Edric og 106 bls. af inngöngum að erlendum fréttum úr fréttatímum sjónvarps það sem af er árinu. Er annars farinn að taka strætó eða metro gagngert til að geta lesið...
- skroppið til Berlínar og átt unaðslegt húsmæðraorlof með trukkunum. Ein stakk við, önnur reif á sér hornhimnuna, sú þriðja klemmdi á sér brjóstið milli stafs og hurðar og fjórða húsmóðirin fékk æluna. Held næsta orlof verði á Kúbu.
- séð húninn Knút í dýragarðinum í Berlín. Knútur er, ykkur að segja, orðinn vitstola, eins og flest dýr í búri.

Síðar...

|