hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Hrært í eina...

Hverjum dettur í hug klukkan ellefu að kvöldi að baka flatböku og gulrótarköku? Mér.
Gulli kom svo í boðið með eftirrétt af Café Óperu. Slógum upp veislu og þetta var glimrandi.

Tókst að henda út öllum krækjunum mínum þegar ég skipti um ham...

Ekki gott þegar fólk er skotið í röngu fólki. Binna er skotin í Tryggva sem er skotinn í Jóni. Það á hins vegar aldrei eftir að ganga þar sem Jón er skotinn í Birni. Nema hvað ást Jóns er ekki endurgoldin. Björn er skotinn í Binnu, nema hvað?
Hvenær í andskotanum verða tekin upp strikamerki í tilfinningabransa og kynlífi?

Er svooo spenntur að komast út... Matta fór út í dag, hún var ekki enn farin að grenja þegar ég heyrði í henni á leiðinni út á völl.

Síðar.

|

mánudagur, ágúst 30, 2004

Latex, ábyrgð, sjálfsvirðing og seinustu dagar sumars...

Frá því ég bloggaði seinast hef ég...

- Bætt við tveimur nýjum krækjum, á feiknaskemmtilegar stúlkur, Möttu og Hlédísi.
- Talað við pilt sem var í leit að sjálfsvirðingu. Benti honum á Vegamót, þeir selja sjálfsvirðingu með Cesarsalatinu, hef ég heyrt.
- Talað við annan pilt í ræktinni, með fyllerísmóral. Sá stóðst próf sem fyrir hann hafði verið lagt.
- Fengið latex-streng og blóm að gjöf. Og að sjálfsögðu mátað strenginn...
- Unnið minn seinasta vinnudag uppi á RÚV. Í bili að minnsta kosti.
- Daðrað og verið freðýsa.
- Fengið kökk í hálsinn með vinnufélögunum, ótrúr þeim boðskap mínum að tilfinningar séu fyrir aumingja.
- Setið í strætó í rúman klukkutíma á leið í Smáralind; gremjan jókst í jöfnu hlutfalli við liðnar mínútur og kílómetra að baki.

Kveðjupartýið á Ölstofunni í gærkvöld var svona ljómandi skemmtilegt, margt gott fólk sem lét sjá sig. Jóhanna leiklistarnemi blés á tal mitt um það hversu ábyrgðarlaus ég væri að vera á leið út í lönd. Hún sneri þessu við og benti á ábyrgðina sem við berum á því að njóta lífsins. Ég kaus hana ræðumann kvöldsins.

Ólympíuleikarnir fóru fram hjá mér en get samt sem áður ekki látið hjá líða að minnast á samhæfðu sundfimina... Er ekki hægt að eyða tíma og fé í eitthvað viturlegra?

Sá Super Size Me í vikunni með Möttu, Hlédísi og Þóri. Svaf eftir hlé. Hún er of löng. Löng en góð. Neðri kjálkinn datt niður í gólf þegar ein mamman sagði feita pabba sinn hafa verið jarðaðan í píanókassa. Dóttirin, spikfeit, sagðist ekki eiga peninga til að grennast. Eina leiðin til að grennast er nefnilega að borða á Subway tvisvar á dag, ef þið skylduð ekki hafa vitað það. Fróðleg pæling samt um hvenær það verður leyfilegt að úthýsa feitu fólki eins og reykingafólki er úthýst í dag. Samfélagið leyfir að reykingafólk sé ofsótt og líklega verður komið veiðileyfi á feita líka eftir nokkur ár.

Matarboð hjá Kára bróður og Kristínu fyrr í kvöld og kúr með kettlingnum Snuðru. Svo fer ég formlega að lýsa yfir haustkomu, hvað úr hverju. Nema hvað sumarið er jú örlítið lengra í Danmörku en á Íslandi. Fyndið hvað maður ætlar alltaf að gera margt seinustu daga fyrir brottför... Ekki eins og ég sé að fara til Afríku en samt...
Síðar.
Nótt.

|