hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

þriðjudagur, júlí 10, 2007


Ég er enn á róli, hef bara haft öðrum hnöppum að hneppa, þarfari hnöppum og um þarfari hluti að hugsa. Það er mikilvægara að láta vita af sér í raunsamfélagi en netsamfélagi. Nunnan var í Siena... Ítalía var frábær, át frá mér ráð og rænu á þessum tíu dögum, sleikti sólina, las tvær bækur; America Against the World og Interpretation of Murder, hrasaði og hruflaði á mér stórutána, hugsaði með mér að bandarískir túristar hefðu eyðilagt Flórens, keypti millistykki, leysti lífsgátuna, át granítur með möndlu- og kaffibragði, hesthúsaði eggaldin-timballo og var kysstur af karlinum sem sendi mér espressokönnu handa Fabio í Via Garibaldi í Catania. Hann hefði alveg mátt sleppa því, þurfti að þerra á mér hvarmana þegar ég gekk út úr helvítis búðinni...

Nú er hins vegar danskur veruleiki tekinn við, það er, næstu sex dagana. Held ég þurfi að setja mér þá vinnureglu að svara ekki vinnupósti úr rúminu, það er nokkurn veginn það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna og það seinasta sem ég geri áður en ég lognaast út af... Ég er varla einn um þessa tilfinningu, að sinna vinnunni uppi í rúmi? Býður upp á skemmtilegan útúrsnúning...

Tengdaforeldrar mínir eru í heimsókn, það er, foreldrar sambýliskonunnar minnar, sem nota bene, gleypir ekki lýsispillur heldur bryður þær. Og tengdaforeldrarnir eru perlur, eins og dóttirin. Um daginn sagði hún að ég væri fægilögur... Og svo er stærsta jasshátíð Evrópu í Kaupmannahöfn þessa dagana. Því fögnuðum við Íris á La Fontaine í Strætinu á laugardag... Sá Zodiac. Góð en löng. Hitti Ragnheiði og co. í Kongens Have... Danska sumarið er blautara en ég hafði búist við.

Kem til Íslands 17. júlí, að öllu óbreyttu...

|