
Ég er sá sem...
...sleikti sólina í Trastevere í Róm í dag. Ég er líka sá sem er búinn að drekka einum of marga espresso undanfarna tvo sólarhringa. Og borða cornetto, foccacia, penne all´arrabbiata og saltimbocca alla romana; og skola því niður með rauðvíni. Ég er sá sem tók ítarlegt viðtal við ráðherra í ítölsku ríkisstjórninni, án þess að ýta á REC takkann. Einu sinni er allt fyrst... Ég er maðurinn sem neitaði að dansa við tvær rómverskar stúlkur á klúbbi í gærnótt. Ég er pilturinn sem hitti feiknin öll af áhugaverðu fólki í gær. Ég er líka trúleysinginn sem varð vandræðalegur við það að hitta Jósef Ratzinger og þiggja af honum talnaband. Og ég er sá sem velti vöngum yfir afdrifum mannsins sem kom til mín á Termini lestarstöðinni í dag og bað mig að gæta farangursins sins. Ólánsmaðurinn kom aldrei aftur. Ég beið í kortér og endaði á því að hlaupa í mína lest aður en hún rann úr hlaði. - Og svo er ég maðurinn sem er kominn aftur til Kaupmannahafnar :) Húsmæðraorlof í Berlín í næstu viku!