hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

föstudagur, janúar 07, 2005

Eru það samantekin ráð...

að kommentera ekki á bloggið mitt á nýju ári? Þið um það.

Hitti pilt um daginn sem þjáist af sama vanda og ég. Ætli hann sé ekki bara álíka sjálfhverfur og ég? Vandanum að taka ekki eftir nafni fólks þegar það kynnir sig. Ég man bara hvað ég heiti þegar kynningunni er lokið. Er líklegast svona upptekinn af því að koma vel fyrir.
Og svo heiti ég auðvitað stundum Kevin, hér í Kaupmannahöfn. Það hljómar svo líkt og nafnið mitt. Svo er það bara svo miklu auðveldara að heita Kevin, hefði aldrei trúað því. Og það gefur mér fimm aukamínútur til að beina samræðum í aðrar áttir en að nafninu mínu. Ég lifi sem sagt tvöföldu lífi hér.

Átta stiga hiti í Kaupmannahöfn. Vildi deila því með ykkur. Gaman.

Síðar.

|

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Líkar bara...

...betur og betur við þessa borg. Var að koma hjólandi heim af pöbbarölti með Jacobi Holm.

Fékk launaseðil í pósti í dag, frá skemmtilega símafyrirtækinu sem ég vann tvær klukkustundir hjá þar til ég sagði upp með látum. Nú þegar skatturinn hefur verið tekinn af tímalaununum mínum, þá bíða mín 63 DK inni á Nordea bankareikningnum mínum. Launin ein og sér hefðu sem sagt verið ástæða til að segja upp. Burtséð frá því hvað vinnan var leiðinleg. Hefði eiginlega átt að segja upp tvisvar eða skella fleiri hurðum. Á morgun ætla ég að gera mér glaðan dag fyrir summuna.

Lærist þolinmæði? Ef svo er þá hef ég fleiri ástæður til að hlakka til að eldast. Þolinmæði er ekki mín sterkasta hlið.

Er enn að furða mig á öllum þeim jólakortum sem ég fékk í seinasta mánuði. Er jafnþakklátur og ég er skömmustulegur yfir að hafa ekki sent eitt einasta jólakort síðastliðin ár.

|

mánudagur, janúar 03, 2005

Eyjafjallajökull - Kaupmannahöfn

Heimurinn er lítill og skrýtinn.
Fyrir sólarhring, klukkan að ganga þrjú um nótt, lá ég einn úti á túni bak við húsið hjá mömmu og pabba á Hvolsvelli, dúðaður í kuldagalla og horfði á norðurljós. Marr í snjó, frost og tunglskin. Þessa hafði ég saknað.

Klukkan þrjú í dag stóð ég á toppi Eyjafjallajökuls með bróður mínum, í fimmtán stiga gaddi. Drakk svo kaffi úr hitabrúsa, át flatköku með hangikjöti sem mamma hafði smurt, tók í nefið og hnerraði. Ógleymanlegt. Las Klisjukenndir eftir Birnu Önnu Björnsdóttur, í jeppanum á leiðinni á jökul. Nokkuð góð. Bókin segir frá ungu fólki í dag, sem hefur allt til alls en líður samt eins og aumingjum, því því tekst ekki að finna það sem það leitar að...

Á morgun klukkan þrjú verð ég í háloftunum, á leið til Kaupmannahafnar... Árið byrjar sem sagt vel.

Seinustu dagar á landinu hafa einkennst af gæðastundum með vinum og fjölskyldu... Hef ýmist sofið upp í hjá Siggu systur eða Þóri. Er búinn að hitta fullt af góðu fólki en aðra hefur mér ekki tekist að hitta. Alltaf svoleiðis þegar maður kemur heim í stutt jólafrí. Of margt fólk, of stuttur tími. - Var boðið í mat hjá Pétri og Ásgeir í vikunni eða bauð mér reyndar þangað sjálfur. Þeir fá gestgjafaverðlaun. Kaffisopar hjá Ragnheiði á Reynimelnum. Sólon með Fríðu, Ingu, Þóri, Svönu og Jóhanni. Tinna á Te og kaffi. Vigdís á Hverfisgötunni. Tröllið og Læðan á Ránargötunni. Gulli á Ránargötunni. Áramótapartý á Fréttastofunni. Áramótin voru ljúf, í bústað í Gnúpverjahrepp með Þóri, Möttu, Gulla, Ásdísi og Hlédísi. Stukkum saman niður af stólum þegar gamla árið hvarf okkur sjónum í sjónvarpinu og 2005 birtist. Stuttu síðar sátum við öll, undir stjörnubjörtum himni, berrössuð í heita pottinum, að gera upp árið... Vonbrigði ársins, hápunktar ársins, niðurlæging ársins, það besta, það versta, það eftirminnilegasta, áramótaheit, bólfélagatal og þar fram eftir götunum. Vel heppnuð áramót. - Engin fjarstæðukennd áramótaheit, gleymi yfirleitt að strengja svoleiðis.

Seinustu dagar hafa líka verið hugleiðingar um blogg og ástæður þess, kaldhæðni, mannleg samskipti, miskilning, hroka, sjálfhverfu, ábyrgð, húmor, blogglesendur, bloggkrísur, grímur, kaldlyndi, og það að taka sjálfan sig alvarlega. Eða ekki. Hugleiðingar um pressuna að verða eitthvað eða að vera að gera eitthvað til að verða eitthvað.

Það sem stendur upp úr á seinasta ári, í fljótu bragði, er vikuganga í Lónsöræfum í þrjátíu stiga hita, Barcelona og Baskaland, Ítalíureisa, flutningurinn til Kaupmannahafnar, sumarið og vinnan á RÚV. Og svo ótal, ótalmargt annað...

Nýtt ár, nýir staðir og nýir hlutir að uppgötva...

|