hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

laugardagur, maí 21, 2005

Ég á vinkonu...

...sem var kölluð Lóa þegar hún var lítil, því hún át ló og ryk þar til hún varð fimm. Þessi sama vinkona segir að ég verði að koma út úr skápnum sem tívolíisti. Hún veit ekkert skemmtilegra en að fara í tívolí og vill gjarnan að ég sé sömu skoðunar. Fór einmitt með henni í þriðja skiptið á þessu ári, í tívolíið í Kaupmannahöfn, í gær. Fórum reyndar líka í tívolí í París um daginn. Í þessum skrifuðum orðum er Matta flugdólgur úti á Kastrup á leið í flug til Íslands.

Danmerkurárið hennar að baki. Hún drekkur víst bara kaffi með mér og engum öðrum... Í gær og í dag höfum við verið að slútta árinu, vorum meðal annars boðin í vöfflur til Írisar á Frederiksborggade í gær. Lentum í úrhelli í morgun en sleiktum svo sólina í Malmö í allan dag og skvettum í andlitið á okkur á meðan við þornuðum, hægt og bítandi.

Ræddum fyrsta kossinn í gær. Minn fyrsti var með Unni Björk nokkurri. Fyndin minning. Fannst tungan á henni loðin og hélt ég mundi kafna. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, held við höfum bæði kysst mann og annan síðan þá. Okkur var í það minnsta ekki skapað nema að skilja.

Mér finnst óskaplega skemmtilegt að Íslendingar skuli ekki hafa komist áfram í söngkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Óendanlega fyndið. Hertu upp huga þinn, hnýttu allt í hnút.

Alltaf fyndnir svona síðustu dagar fyrir brottför og flutninga, þegar togast á tilhlökkun og kvíði. Fólk kvatt og tíminn hleypur frá manni...

|

miðvikudagur, maí 18, 2005

Mantra dagsins

Tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja, tilfinningar eru fyrir aumingja.

Þetta ár í Danmörku er ég búinn að læra dönsku, að borða mayonnaise með frönskum og það að þegar slíta á sambandi er nær ómögulegt að gera það án þess að grípa til klisja. Þetta hefur nær allt verið sagt. Og þó : )

|

þriðjudagur, maí 17, 2005

Játningar ofurhetju

Var það í gær, ofurhetja. Yfirmannleg ofurhetja . Skreið upp í rúm um ellefuleytið í gærkvöld, dauður úr þreytu. Líf mitt var sápa í gær, tilviljanir og handrit sem fá The Bold and The Beautiul til að blikna í samanburðinum. Allt klandrið kom ég mér að sjálfsögðu í sjálfur, þannig er það oftast. Sjálfsskaparvíti. Fleira get ég ekki gefið upp á þessum opinbera fréttamiðli. Líf og fjör.

Ég er orðinn það vanur að höndla vandræðalegar uppákomur að ég er farinn að sækja í þær. Finnst þetta ánægjuleg þróun. Vandræðalegheit eru skemmtileg. Þetta er enda eina hugarfarið sem gagnast.

Hvað veldur því að fólk rífur sig úr fötunum um leið og það er komið inn úr dyrunum heima hjá sér? Um leið neita ég að trúa því að ég sé einn um þetta, að líða betur hálfnöktum heima við. Einhver? Bý hjá Kidda núna og hann á svolítið erfitt með þetta enda blygðunarkennd hans sterk. Íris, sem vill ólm fá mig til sín einhvern næstu daga, kann hins vegar að meta svona perversjónir, ef ég þekki hana rétt.

Loksins þegar ég er búinn að læra hvar maður kaupir stíflueyði, lottó og ljósritunarpappír, þá er ég á förum frá Danmörku. Það er nefnilega þannig að hver þjóð hefur sitt eigið skipulag þegar kemur að hegðun kaupenda, byggt á þjóðarkarakter. Dönsk apótek selja ekki linsuvökva, hins vegar rakspíra og verkfæri. Ein vinkona mín var búin að búa hér í nokkra mánuði þegar hún loks rambaði inn í búð sem seldi buxnainnlegg. Gott ef það var ekki verkfærabúð sem seldi auk þess bómullarís og bómullargarn. Hér eru allar sjoppur líka ljós/fjölritunarstofa. Svona var þetta líka á Ítalíu, tók mig tvö ár að læra að versla.

Og Kylie bara komin með brjóstakrabba... Svo finnst mér fyndið að það skuli rata í fréttir að George W. Bush Bandaríkjaforseti sé að lesa bók um þorskinn. Og...?

|