hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

laugardagur, júní 07, 2003

Þá er ég kominn á Hvolsvöll í sveitasæluna. Hjálpaði mömmu í garðinum í dag við að rífa upp þökur og lagði mig svo úti á bletti. Óskaplega ljúfur blundur, við undir hrossagauks og stelks. Var að borða mömmumat og hef það sem sagt gott. Í gærkvöld kíkti ég á Dagnýju druslu og Arnar son hennar upp í Hafnarfjörð og át u.þ.b. tíu Ræskrispískökur (á íslensku má alltaf finna svar) og lék við þau mæðgin til miðnættis. Alltaf höfðinglegar móttökur í Hellisgötu, eða var það Hellisgerði? Þórir, Una og ég kíktum svo út klukkan að ganga tvö um nóttina en vorum ekki lengi. Röltum eiginlega bara um bæinn og á milli staða eins og maður gerir svo oft á sumrin, þá er alltaf langskemmtilegast á djamminu úti undir beru lofti. Hittum fullt af fólki en ekkert okkar var í brjáluðu djammstuði þannig að leiðin lá heim á Hverfisgötu þar sem við dottuðum yfir Will og Grace á meðan við biðum eftir að Dominos flatbakan skilaði sér til okkar, sem hún svo gerði fyrir rest. Pétur bróðir spurðu mig í fyrradag hvort ég væri eitthvað að eiga við sambýlismann minn. Ég kom því á hreint að svo væri ekki. Kári bróðir og Kristín koma frá Krít á mánudaginn og ég næ í þau út á Völl, skila þeim bílnum og verð þá aftur kominn á DBS fákinn innan tíðar og mun halda áfram að vekja athygli fyrir hann í miðbænum, sem minnir mig á bókartitilinn Stúlkan á bláa hjólinu. Já, Richard Chamberlain, gamla kempan úr Þyrnifuglunum (hver man ekki eftir þeim) var að koma út úr skápnum um daginn. Til hamingju Richard, betra seint en aldrei. Kannski ég kíki á Gulla upp í Hreppa á leið í bæinn á morgun? Hann sýnir mér þá kannski þjóðveldisbæinn að Stöng? Gott í bili. Siggi Már er líka hér í sveitinni, ætla að hitta hann hér á eftir...

|

föstudagur, júní 06, 2003

Púff, er að klára stuttu vaktina uppi í Útvarpi. Allt þetta fína að frétta. Svo mikið gaman að gera í vinnunni að maður hefur ekki einu sinni tíma til að hanga á netinu og lesa eða skrifa blogg. Við Þórir fórum í labbitúr niður að Tjörn í gærkvöld og enduðum svo kvöldið á því að éta ís og horfa á Queer as Folk. Er kominn í helgarfrí, á ekkert að vinna fyrr en á þriðjudag. Helgin er alveg óráðin en ég ætla jafnvel austur á Hvolsvöll í sveitina. Svo er Davíð með útskriftarveislu á laugardaginn og þangað er ég boðinn ásamt Þóri. Er óðum að finna útvarpsröddina mína sem sumir reyndar þekkja ekki og á ég þá við t.d. ömmu, Gulla, Dagnýju og fleiri. Það er af því að ég er svo formlegur, segir Þórir. En lesturinn er alla veganna að slípast og maður er farinn að slaka á í stúdíóinu í beinni. Annars er ég frekar tómur, hef ekkert gert annað en að vinna og hugsa um vinnuna. Fyrir þá sem vilja lesa skemmtilegt blogg þá vísa ég bara á Gulla. Og þá að öðru. Lag dagsins gæti verið, tja, bara Ég einskis barn er, með Kristínu Ólafs. Orð dagsins væri þá gefja en það er þunn, gisin þoka, grisjótt skýjaslæða. Þakka þeim sem hlýddu, góðar stundir.

|

mánudagur, júní 02, 2003

Jahérna hér, þá er þessi fíni dagur að kveldi kominn. Vaknaði klukkan sex til að skutla Kára og Kristínu í flug út í Keflavík. Mætti svo beint í vinnuna kl.8.30. Búið að vera fínt. Skrifaði um G8, geimskutlu til Mars, verkfall á Ítalíu, rútuslys í Frakklandi og svona dóterí. Fyndið að vera í þessari aðstöðu, einkennilegt hvað maður verður þurr í munninum þegar maður fer aö döbba, taka upp pistla. Er hálftuskulegur, eins og undinn tuska. Á að mæta 6:45 í fyrramálið, ætla heim að éta og svo í ræktina nún á eftir. Meira síðar..

|