hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

föstudagur, mars 11, 2005

Ef-bloggið

Kona gærdagsins var Dagný Hulda D. Erlendsdóttir, fyrrverandi sambýliskona mín og barnsmóðir og núverandi sendiráðsstarfsmaður í Tókýó. Hún varð 28 ára í gær, ellefta mars. Við slitum samvistum fyrir nokkrum árum. Vorum í sambúð í u.þ.b. ár, í Samtúni í Reykjavík. Afskaplega ljúfur tími. Hlátur. Hún reyndar byrjaði með Skúla á þeim tíma líka... Dagný er stólpakona og mér fyrirmynd að mörgu leyti. Hún er t.d. gædd þeim fágæta eiginleika að geta brosað á sama tíma og hún er í fýlu. Það er mér ómögulegt. - EF ég spilaði á gítar, þá mundi ég semja lag og segja svo: ,,Dagný, ég elska þig" - Ég spila hins vegar ekki á gítar, lærði í mánuð þegar ég var tíu en hætti því mér var svo illt í fingurgómunum.

...EF að allar vanhugsaðar óskir rættust, meðal annars þær sem voru bornar fram um seinustu helgi, þá væri Matta hommi og ég atvinnulaus.

Síðar.

|

þriðjudagur, mars 08, 2005

Ég lít í anda liðna tíð

Dagur númer tíuþúsundtvöhundruðogtuttugu í lífi HH.
Á stundu sem þessari er til siðs að líta um öxl.
Hvað hef ég lært, þegar ég lít yfir farinn veg, og hvað ekki? Á hundavaði...

-Jú, það er til dæmis yfirleitt betra að segja en nei, um hvað svo sem málið snýst.
-Mér hefur líka lærst að skipta mér ekki af framhjáhaldi annarra. Það er þeirra mál, ekki sendiboðans sem svo verður skotinn. - Öll dramatísk komment á þennan lærdóm minn eru allt að því afþökkuð : )
-Í fyrra lærði ég að binda bindishnút og það feitan, á tuttugasta og sjöunda aldursári.
-Ég hef ekki enn lært að skipta um kló á rafmagnssnúru, vegna forgangsröðunar minnar; finnst einfaldlega aðrir hlutir brýnni. Svo eru til menn sem gera svona hluti.
-Ég er búinn að læra að vinir skipta miklu.
-Ég á eftir að læra að borða ansjósur.
-Ég er búinn að læra að ég læri sjaldnast af reynslunni. Eins og flestir.

Var spurður að því um daginn af hverju svona mikil dramatík loddi við mína vinahópa. Spurningin fékk mig til að hugsa... Veit einhver svarið þarna úti?

Seinasta helgi var einstök, með góðu fólki, Kidda, Tobbu, Þórhalli, Þóri, Sigurd og fleirum. Matta danska frá Árósum heiðraði okkur með nærveru sinni. Gaman. Drukkið og étið eins og það væri enginn morgundagur. Eftirminnilegt er t.d. þegar Matta spilaði lagið um Bastían bæjarfógeta á magann á sér, djammlok á Burger King á miðnætti á föstudagskvöldið, bjórsull á Nyhavn daginn eftir, vatnspípa með eplabragði á Vega og viðreynslur.

Kaupmannahöfn er að þiðna og losna úr klakaböndum. Sólin braust loks fram fyrir nokkrum dögum. Fyrsta sólardaginn stillti ég mér upp úti á gangstétt hér í grendinni, þar sem sólin náði að skína niður milli húsþaka og drakk hana í mig...

Fregnir af nýjasta örinu á enninu á mér... Hver segir að blogg séu sjálfhverf?
Skallaði sturtuna inni á baði um daginn, um miðja nótt, og fékk stóran skurð á ennið. Blóðið fossaði þar sem ég stóð undir vatnsbununni. Fæ fallegt danskt ör hægra megin á ennið, til mótvægis við enska örið vinstra megin, sem ég fékk í grennd við Sheffield hér um árið, þegar ég var í frisbee með matardiska. Örið á miðju enni er íslenskt; hljóp á vegg í sveitinni heima sem lítill patti. Harður nagli...

Sól í sinni. Síðar. Og takk.

|