hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

miðvikudagur, maí 23, 2007

Frá því ég bloggaði seinast hef ég...

- lesið Karítas án titils, í einum rykk. Ákaflega, ákaflega góð.
- setið í lest.
- drukkið appelsínugult kaffi.
- verslað eins og vindurinn.
- lesið blöð og sólað mig í Kongens Have.
- ekki hlaupið Kaupmannahafnarmaraþon en langað það.
-fengið handlaginn bróður og fjölskyldu í heimsókn að Bitru.
- verið grasekkill, sambýliskonan er á Fróni.
- býsnast á leyninúmerum og ruglað saman kóðanum á ljósritunarvélinni, danskri og íslenskri kennitölu, vildarkortsnúmeri, pin númerinu á einu símakortanna, lykilorðinu í einkabankann, leyninúmeri breska debetkortsins, útibúsnúmeri danska bankans, lykilorðinu á Fjölmiðlavaktina og Inews...
- skrifað handrit og brotið heilann.
- gefið betlara banana.
- rætt við ölvað systkini í síma.
- óskað mér meiri tíma.
- verið eirðarlaus.
- fengið þá tilfinningu að vera sá sem seinast er valinn í fótboltalið, þegar vini mínum var boðinn módelsamningur úti á götu, en ekki mér. Ég boraði í nefið.
- skilið tilgang lífsins. Sá sem á flesta skó þegar hann deyr, hann vinnur.
- reiðst yfir undirskriftasöfnun til stuðnings því að skemmtistaðurinn Pravda verði endurbyggður. Stundum er sagt að ungt fólk hafi ekki hugsjónir, hvaða vitleysa? Hvað er mikilvægara en Pravda?
- sungið sól, sól, skín á mig, hiti fimmtán stig, bágt er í sólinni að brenna sig, sól, sól, skín á mig.
- reynt að geta mér til hver vinni á tíu ára útskriftarafmæli mínu frá Menntaskólanum að Laugarvatni næsta laugardag. Keppt er í flokkunum mesti/minnsti skallinn, fríðasti/ófríðasti makinn, mesti/minnsti framinn, minnsta/mesta öldrunin, gerðarlegasta/minnsta ístran...

|