hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Í dag...

... óskaði mágkona mín mér til hamingju með að það eru átta ár frá því ég klæddi hana úr brúðarkjólnum. Stóri bróðir og spúsa hans eiga sumsé brúðkaupsafmæli í dag. Það er saga á bak við það að ég klæddi hana úr kjólnum en ekki brúðguminn.

Af hverju er maður svona missætur? - var ég spurður í dag. Ég átti svar á reiðum höndum...

Var að ljúka við Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson, í fyrsta skipti. Líður eins og ég hafi verið í íslenskukúrs, smjattaði á setningum og orðum eins og konfekti... veifiskatar, skelmirspör, myldinn, doms, orðsök, yglibrún, brekán, nollkaldur, fyglari, ögurlífi, dáindi og afbötun :)

Tilnefning til gúrkufréttar sumarsins: Stöð 2 í vikunni, með 2 fréttir um deilu unglinga og strætó um það hvort vagni hafi verið ekið fram hjá unglingunum eða hvort unglingarnir hafi í raun reynt að stoppa vagninn, fjarri stoppistöð. Ferill vagnstjórans var, að sögn afskaplega alvarlegs fréttamanns, flekklaus. Aulahrollur...

Annars stendur undirbúningur sem hæst fyrir konunglegt stórafmæli sambýliskonunnar. Það fer fram í höllu sænska slektisins í Lundi, um miðjan næsta mánuð. Sambýliskonan er þessa stundina einhvers staðar í Evrópu á námskeiði fyrir nirði um augnhreyfingar. Lýg því ekki... Á milli þess sem ég huga að undirbúningi samkvæmt prótokollsreglum konungsfjölskyldunnar, sýg ég upp í nefið - náði mér í íslenskt haustkvef, svona rétt áður en ég flýg út í dönsku blíðuna.

|