Ég er búinn að vinna upp svefninn sem ég tapaði um daginn, ef einhver skyldi vera að velta því fyrir sér. Ég er ekki búinn að sofa í tvær viku, því fer fjarri. Ég er sem sagt eins og Þyrnirós á meðan Læðan fer á Ölstofuna og er þar vikum saman. Hef haft nóg að gera, úff. Vivi vinkona fór í dag af landi brott til Ítalíu en hún var hjá mér í rúmar tvær vikur. Fór reyndar á Ölstofuna með Læðunni í gærkvöld, við og Vivi. Á vakt alla þessa helgi, get því hommast fremur lítið niðri í bæ. Við Þórir verðum sem sagt hvorugur í gleðigöngunni á morgun, Þórir út úr bænum og ég í vinnunni. Og já, mig vantar vinnu í haust. Sumarið alveg að verða búið, einhver bloggarinn, gott ef það var ekki klaufastrumpur, var að segja að sig vantaði sumarást. Held ég segi bara það sama, eru ekki allir svo fullir af lífi á sumrin?
Við Vivi fórum sem sagt hringinn með 34 manna ítalskan hóp um daginn. Mun erfiðara en ég bjóst við, fengum rjómablíðu allan hringinn, fólkið á aldrinum 25-90 og sumir hreint ótrúlega óskemmtilegir, aðrir skemmtilegri eins og gengur. E.t.v. var ég óheppinn með hóp en ég bjóst alla veganna við meiri skemmtun í starfinu. Þetta var auðvitað minn fyrsti hringur. Þannig að þegar ég loksins kom í bæinn á föstudag fyrir viku, langaði mig aldrei að leiðsegja aftur og strengdi þess heit að segja aldrei aftur víkingur, hraun og eldfjall. Maður sér samt land og þjóð með smá gestsaugum þegar maður ferðast svona með útlendingum, fær innsýn í þeirra sýn á land og þjóð, hvað við erum óskaplega fá og vernduð, pínulítið rasistaríki norður í Ballarhafi, djammið er súrsaðir pungar og súrar píkur, allir með öllum og allir skyldir, smjattandi á náunganum í hinum ýmsu merkingum. Svo gortum við okkur af öllum þessum heimsmetum í hinu og þessu en eftir allt er það bara minnimáttarkennd og ekki marktæk tala því eftir allt erum við bara 290.000, eins og lítill bær í venjulegu Evrópuríki. Þegar maður hugsar út í þetta allt saman langar mann af landi brott með það sama... Ítalskan mín er orðin hrikalega léleg, maður ryðgar svo hratt. Titti og Heiða eru bæði að koma úr hringferð núna í dag, það verður gaman að heyra hvernig gekk hjá þeim. Ragnar bauð mér að leiðsegja einhverja ítalska milla eftir einhverja daga og ég eiginlega ýtti því frá mér sökum áhugaleysis, auk þess sem ég þarf að standa mína plikt þessa seinustu daga ágústmánaðar.
Ég skaust einn dag á Hvolsvöll með Vivi, fórum á hestbak á Skógum. Ég fékk lítið taminn fola þannig að ég var að skíta á mig allan tímann, hann reyndi að rjúka með mig í einhver skipti og var mun stressaðri en knapinn og þá var mikið sagt. En við komumst öll heilu og höldnu í hlað aftur að Skógum. Ég hef hins vegar farið í skemmtilegri reiðtúra. Vivi er líklega fyrst núna að ná sér í júgrunum, stór brjóst eru ekki góð í hestamennsku, hef það fyrir satt. Gengum bak við Seljalandsfoss á heimleiðinni. Pabbi var svo með gríðarlega grillveislu um kvöldið, hrikalega gott og daginn eftir fórum við svo í sund, ég klippti tré og reyndar fórum við á línuskauta líka. Það var í fyrsta skipti sem ég prófaði slíkar græjur og þótti góður, þó ég segi sjálfur frá.
Matta fær íslenskuprik ágústmánaðar, hún notaði orðið bljúgur um daginn og fékk mikið hól fyrir. Ég sem hélt enginn notaði þetta nema þegar Rut Reginalds væri sungin. Sífellt kemur Matthea á óvart, bara að hún haldi því áfram.Og vita ekki allir af partýinu að Hverfisgötu 82 þann 22. þessa mánaðar? Þórir var búinn að blogga um það. Það verður inn og útflutningspartý Siggu og Þóris með meiru...
Dagný drusla er komin til landsins frá Spáni. Hitti mömmu hennar um daginn á Reðasafninu og hafði mikið gaman að. Ég var þar með Vivi og við Dagnýjar mamma vorum líklega bæði hálfskömmustuleg, hún kannski meira en ég.