hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Sjávarkjallarinn - fjórar stjörnur

Frábær matur og þjónusta, nýtt bragð aftur og aftur. Skötuselur, reykt ýsa, túnfiskur, smokkfiskur, saltfiskur o.s.fv, o.s.fv.
Játningar og opinberanir leyndardóma flugu yfir borðið, hver var skotinn í hverjum og hver fór í læknisleik með hverjum hér á árum áður. Gígja, Ragnheiður og Héðinn voru sátt.

Rifjuðum meðal annars upp þegar sá sem þetta ritar átti forkunnarfallegan póló-bol, nákvæmlega sömu gerðar og Högni nágranni, hennar Málmfríðar. Nema hvað Högni var fjörutíu árum eldri en ég og talsvert framsettari og fyllti betur út í bolinn. - Það var nú bara þannig í fásinninu úti á landi að þegar ný föt bárust í Kaupfélagið og Fatabúðina, þá þýddi ekki að vera með neitt pjatt. Meira svona spurning um líf og dauða, spurning um fataplögg til að klæða af sér kuldann úti á landi. - Bolurinn var alla veganna helvíti ljótur.

Hér er bloggað um allt nema Ólympíuleika. Hef ekki enn haft tíma til að fylgjast með þeim í sjónvarpinu. Er það heppinn að hafa nógu mikið annað fyrir stafni en að hlamma mér niður og horfa á aðra stunda íþróttir og svitna. Íþróttagreinarnar eru reyndar misskemmtilegar á að horfa. Búningar spila þar stóra rullu og holdafar keppenda. Og svo gæti ég líklegast sett fram þá kenningu að karlmenn sem hrífast af fimleikum á leikunum í Grikklandi, eru ekki eins kynvísir og þeir vilja vera láta...

Tveir vinnudagar eftir af sumrinu... Skrýtið. Ég sem hef búið í Útvarpshúsinu seinasta árið, nótt og dag. Hvað tekur þá við?

Fyrir þá sem vita um hvað málið snýst þá er stefnt að Lokapönnu á þriðjudag...


|

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Mér finnst rigningin góð...

Og í dag handlék ég plastaðan mannsheila og plastaða afskorna hönd í vinnunni... Mér finnst óskemmtilegt þegar fólk er feimið að koma í viðtöl. Vinnudagurinn var annars góður. Fordrykkur með Gígju og Ragnheiði annað kvöld og svo er það Sjávarkjallarinn...

Pétur, Þorvaldur og Þórir voru í mat hjá mér á Hverfisgötunni í kvöld. Gott kvöld.

Eru ekki örugglega allir klárir á Ölstofunni á laugardagskvöldið?
Veit reyndar að ég er að keppa við tónleika James Browns og brúðkaup Finns Becks en það verður að hafa það.

Jæja, tími á suma. Það er svo ljómandi gott að hlusta á rigninguna og sofna...

|

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Úr einu í annað...

Árás úthverfafólksins er afstaðin, henni var hrundið snemma á sunnudagsmorgninum þegar Menningarnótt lauk. Nóttin fór að mestu fram hjá mér, fór úr miðbænum, í grasagarðinn og á Laugarnesveginn til Möttu. Sá þó Diljá, Vigdísi, Bjarna og unnustann með gjörning við Iðnó; hitti Fjalar við Súfistann og hornið á Apótekinu, hvar annars staðar, og sá Laugaráskvartettinn sem var gaman.
Kona dagsins í dag er Eva Dögg. Hún er ólétt. Jibbí. Það líst mér á.
Gangan inn í Reykjadal á föstudagskvöldið er ólýsanleg, svo góð var hún. Datt reyndar í tvígang í ána en það kom ekki að sök. Sátum í ánni í tvo tíma og sötruðum bjór á meðan það dimmdi. Blankalogn. Svo komu stjörnur og svo komu norðurljós. Súkkulaði, svimi og brjóst, eins og sjá má á myndablogginu. Enduðum á djamminu í Reykjavík sem mér finnst orðið súrt. Mjög súrt. Þess vegna fór ég ekki út að skralla á laugardagskvöldið. Ómögulega takk.

Heyrði í stuðningsfulltrúa mínum í Kaupmannahöfn í kvöld, Kristni Óla, sem reyndar er væntanlegur heim í vikunni... Hef annars hafið stíft dönskunám. Er að lesa Dostojevskijs sidste rejse, gjöf frá Friðriki og Katrínu og líst mjög vel á hana. Er reyndar líka hálfnaður með Veröld ný og góð, sem er svona skyldulesning, mundi ég ætla.
Fór í Hvassaleitisskóla í morgun að vinna frétt. Fyndið að fá fiðring og minnast skólasetningar þegar maður sjálfur var lítill áhyggjulaus patti; engin námslán, vinna eða flóknar tilfinningar, bara Við lesum 3, frímínútur, nesti og mengi í stærðfræðitímum...
Kvaddi Dagnýju Huldu í gær, borðuðum nokkur saman á Horninu og fórum svo á Goodbye Lenin. Góð en bjóst við meiru.

Lýsi því hér með yfir að það er að koma haust. Góðu sumri lýkur brátt.
Og ég bakaði súkkulaðiköku Fríðu í gær. Hitti Ragnheiði, Gígju og syni, braut líka sultukrukku frá Rallý og fór í göngutúr í Vesturbæinn. Takmark gærdagsins var að eyða sem minnstri orku og hafa hægt um sig. Það tókst. Heimsótti Sigga og Siggu á Njálsgötuna og hitti svo Möttu, Fabio og þunnar stelpur á Segafredo.

Hefur einhver verið í þeim sporum og það illa á sig kominn, að þurfa að opna baðherbergisskápa hjá bólfélaga nýliðinnar nætur, í þeirri von að finna lyfjaglös þar sem nafn bólfélagans gæti staðið? Bara svona vangavelta.

Og já, mér var jafnvel að bjóðast vinna í Írak. Mamma er ekki spennt.

Níu dagar. Síðar.

|