hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

laugardagur, desember 27, 2003

Ljúfur laugardagsmorgun í vinunni. Áfengiseiningar engar það sem af er. Gærkvöldinu varði ég heima og átti gæðastund til að safna kröftum eftir lítil og snubbótt vinnujól. Las mig niður úr pósti, dagblöðum og jólakortum og skolaði því niður með kóki, ólífum í boði Gígju, osti og ostaköku. Þorvaldur hringdi og það var gaman að heyra í honum, ræddum menn og málefni eins og lög gera ráð fyrir. Ég hafði veigrað mér við að hringja í hann vegna helgihalds, heilagleika jólanna og almennrar helgislepju sem fer brátt að ljúka, sem er vel. Í kvöld á jafnvel að skralla. Ási og Paw eru komnir til landsins og það vekur kátínu Gulla. Síðar.

|

fimmtudagur, desember 25, 2003

24. desember, aðfangadagur jóla... Vinnustundir: 6, áfengiseiningar: 1 og 1/2 (rauðvínsglas og Tia Maria-jólaís Siggu systur), svefn: 6 klst., hitaeiningar: allmargar enda jólin.
Hóhóhó, gleðileg jól. Komst reyndar aldrei í jólaskap og nú er einhvern veginn allt um garð gengið. Var kominn á Hvolsvöll á Möttubíl um fimmleytið og þá varð að pakka inn þeim gjöfum sem eftir voru, svo varð að fara í jólabaðið og þá var matarundirbúningur og svo var matur, sem við reyndar tókum á góðum tíma. Vorum bara fimm að þessu sinni, mamma, pabbi, Kári og Sigga. Matseðillinn í föstum skorðum eins og seinustu ár, graflax, hamborgarhryggur, jólapakkar opnaðir, heimagerður ís og pecan-baka, kaffi. Mér fannst reyndar eins og þetta væri bara hvert annað kvöld og að við hefðum bara ákveðið að opna eins og nokkrar tækifærisgjafir inni í stofu. Hefði alveg kosið að komast í kirkju því það er svo ágætt að dreifa huganum þar, meira að segja fyrir trúleysingja sem finnst að leggja ætti niður alla trú. En þessi jólin var enginn tími til að fara í kirkju. Jólagjöf ársins held ég sé bara verkfærasettið sem Kári bróðir gaf mér, og þó, fékk svo marga góða hluti. Jólin í fyrra gat ég tuðað yfir því að enginn liti á mig sem macho gaur þegar bræður mínir fengu borvélar og verkfæri sem ég kann ekki einu sinni að nefna, á meðan ég fékk eldhúsáhöld. En í ár fékk ég eldhúsáhöld og verkfæri, nú geta allir hlutir bilað á Hverfisgötunni, fyrirstaðan mun ekki vera verkfæraleysi heldur kunnáttuleysi Héðins í að beita þessu ólíkindatóli sem kallast multi- og skrallskrúfjárn og eru allir vegir færir og er ekkert ómögulegt. Nú og svo fékk ég rúmföt frá Siggu, kaffimalara, kaffibaunir, latte-þeytara og leikhúsmiða í Þjóðleikhúsið frá mömmu og pabba, muffins-form frá Gulla, ólífubakka og ólífur frá Gígju, rauðvín og ost frá Ölstofunni, panettone frá Heiðu og Titti og svo framvegis og svo framvegis. Agga og Bergur kíktu svo við áðan í kaffi, alltaf gaman að hitta þau.
Pannan, um hana má lesa hjá Þóri, hún var haldin hjá Pétri þó svo hann hafi ekki unnið til hennar. Kiddi kom til landsins 22. des., kíkti á Héðin og fór svo á Blönduós. Fórum meðal annars á Vegamót og hittum Völu.
Mér finnst alveg hræðilegt þetta með konuna á níræðisaldri sem kviknaði í á sjúkrahúsi, þessi sem dó af brunasárum en hún var skilin eftir með logandi sígarettu. Ég er enn að melta þetta eftir að ég las fréttina. Siggi stormur var í fréttum kl. 13 í dag, hann er ekki af baki dottinn þó svo spáin hafi ekki verið rétt um jólaveðrið. Og bandarísk stjórnvöld greindu frá því í dag að kúariðan sem upp er komin í Bandaríkjunum, er ekki tengd hryðjuverkum á nokkurn hátt, bara svo það sé á hreinu.
Ég sendi að sjálfsögðu engin jólakort þessi jólin frekar en önnur enda fækkar kortunum sem ég fæ. Þetta er náttúrulega ekki bein myndarskapur á manni.
Spurning um að fá sér svín eða graflax fyrir svefninn? Þessi færsla var í boði Mattheu heilsársengils en það er henni að þakka að ég á jól á Hvolsvelli, hún krafðist þess að ég fengi bílinn hennar lánaðan, sem ég gerði...

|

miðvikudagur, desember 24, 2003

Þórir

|

mánudagur, desember 22, 2003

Ykkur dettur kannski í hug að það séu bara hommar sem fái nöfnin sín feitletruð eins og ætla mætti af færslunni hér fyrir neðan, en það er ekki svo. Hér ríkir jafnræði og þetta var bara einstök tilviljun.

|

Það skyldi þó aldrei vera að jólin færu fram hjá manni í ár eins og stundum áður? Ávísun á það er til dæmis að ná að vinna í einni lotu vikuna fyrir jól, fram til klukkan 14 á aðfangadag. Þá geta jólin komið. Þá verður maður að sæta færis og pakka inn og kaupa seinustu gjafirnar fyrir klukkan þrjú.
Gulla finnst ég ekki minnast nógu mikið á hann á síðunni og auk þess er nafnið hans víst hvergi feitleitrað. Gulli gisti á Hverfisgötunni aðfaranótt sunnudags, svo allt sé nú satt og rétt. Bjöllunni var hringt klukkan hálfsjö, klukkutíma áður en fótaferðartímai var kominn fyrir vinnandi fólk. Ég þekkti röddina hans en það var ómögulegt að greina orða skil. Upp stigann slagaði svo Gulli ofurölvi. Ég hef lítið hitt hann að undanförnu, fyrir utan þessa skemmtilegu samverustund.
Í dag er vetrarsólhvörf og það finnst mér alltaf skemmtilegt. Sólin fer að hækka á lofti og daginn tekur að lengja. Með góðum vilja mætti kannski finna vorið í loftinu... Það er alla veganna yfir frostmarki í dag.
Kíkti á Ölstofuna bæði á föstudag og laugardag. Partýið hjá Bjarna var fínt. Heyrði meðal annars af nýjustu ævintýrum Sifjar en þau eru að sjálfsögðu ritskoðuð. Ölstofan var troðin en hitti þar meðal annars Róald og Ragnar.

|