hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

miðvikudagur, júní 23, 2004

Hef aldrei...

...kynnst fámálli manni en þeim sem ég fór með í bíltúr um Suðurlandið í dag. Vinur Monicu vinkonu sat aftur í og mælti ekki eitt aukatekið orð, eða kannski voru þau fimm, allan daginn. Monica sagði hann ekki vera feiminn heldur bara mann fárra orða. Væri það ranglátt af mér að kalla þetta félagslegan vanþroska fullorðins manns? Hlýtur alla veganna að hefta hann, úff.
Gangan í gærnótt var unaður. Lögðum í hann úr bænum eftir viðkomu á Select um eittleytið. Vigdís, Arndís, Hlédís, Matta, Gulli og Héðinn. Vígði nýju göngustafina. Gengum upp í Reykjadal fyrir innan Hveragerði. Þar skelltum við okkur í heita lækinn þar sem við flatmöguðum í þessum fína hyl og skáluðum í freyðivíni á meðan sólin kom upp. Blankalogn og blíða. Tókum fáklædd á sprett í mýrinni og veltum okkur upp úr dögginni. Heitt kókó, snúðar og kleinur til að fá í sig yl og næringu. Eftirminnilegar sumarsólstöður það, svona eiga þær að vera. Vorum komin aftur í bæinn rétt fyrir klukkan sjö í morgun.
Svaf í þrjá tíma þar til við tók þessi sérstæði bíltúr sem endaði austur í Vík.
Er hægt að panta þessa sól eitthvað lengur? Síðar.

|

mánudagur, júní 21, 2004

Sumar...
Fjöldi fólks varð vitni að fáheyrðum atburði í Laugardalslaug í dag þegar karlmaður á tuttugusta og áttunda aldursári, renndi sér tvær salibunur, einn síns liðs, í vatnsrennibraut sundlaugarinnar, og hafði bæði gagn og nokkurt gaman að tiltækinu. Þessu næst lagðist hann í bleyti í pottunum og brann í sterkum geislum sólar. Dagurinn í dag var einn sá besti það sem af er sumrinu. Nú eru líka sumarsólstöður og allt stefnir í næturbrölt í Reykjadal, þessa stystu nótt ársins, í góðum félagsskap. Ætlum að ganga inn í dalinn eftir miðnættið og baða okkur í heitu lauginni. Stefnan sett á að vera komin í bæinn snemma í fyrramálið.

Skil greiðendur afnotagjalda vel þessa dagana, þá sem ekki hafa gaman að íþróttum í sjónvarpi. Steininn tók úr í gær þegar sjónvarpað var formúlu, frjálsum og fótbolta. Mér ofbauð.

Bendi á blogg Roalds og Þóris. Báðir virðast vera í aldurskrísu og djúpum pælingum. Athyglisvert.

Kaffibrennslan með Vigdísi í gærkvöld til að ræða menn og málefni. Vegamót í hádeginu í dag með Þorvaldi til að ræða, jú, mikið rétt, menn, málefni og menn.

|