hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

laugardagur, janúar 31, 2004

Áfengiseiningar: 3 Svefn: 6 Stundum varið í vinnu: 11

Var vakinn af Brodda Broddasyni sem vantaði mann á vakt. Hafði ætlað mér að sofa út, þ.e. til svona tíu, ekki til fjögur eins og þegar Þórir sefur út, en tölti þess í stað upp í útvarp þar sem ég er núna að klára vakt. Gullfoss, Samtök iðnaðarins, jafnréttismál og OECD voru meðal hugðarefna dagsins.
Ég ætlaði alltaf að segja frá því hversu sleginn ég er yfir áhorfstölum jafnaldra minna á fréttir. Þetta kom fram á Fréttastofufundi um daginn. Held um 20% fólks á þrítugsaldri horfi á fréttir í sjónvarpi og meirihluti þeirra velur fréttir á Stöð 2! Bæði er slæmt. Á ekki orð yfir sinnuleysinu og ekki heldur því að velja svona léttúðugan fréttamiðil, sem Stöð 2 er. En það stendur nú allt til bóta með nýjum fréttastjóra.
Kíkti á Grand Rokk í gærkvöld en þangað fer ég einmitt ekki að staðaldri. Var þar með Þóri smólitíkusi, SMattheu, Hlédísi, Ölmu fegurðardrottningu, Dóu og einhverjum sætum strákum. Ætlaði í raun ekkert út í gær en þetta bara atvikaðist svona. Sigga sífulla systir mín var líka einhvers staðar úti og Þórir gisti svo uppí hjá henni. Leikar bárust meðal annars á Ölstofuna en við enduðum svo heima hjá Dóu með hamborgara, franskar og Coke klukkan þrjú í nótt.
Var að hugsa um að byrja að skrifa handrit að sápuóperu hér á blogginu. Prófaði það í gær í sms og tel það hafa gefið góða raun.
Nagandi sektarkennd kvaldi Deboruh þegar hún leiddi hugann að hjúskaparbrotinu sem hún hafði framið með Steve í hesthúsinu. En henni til huggunar þá hefði það aldrei komið til ef hún hefði ekki komið að unnusta sínum Chris, í kynferðislegum athöfnum með vikapiltinum. Tár brutust fram af tilhugsuninni einni saman. Ó, bara ef Jill væri hér. Hugsa sér, hún bara úti á Bahamas og veit ekkert af því hvað Chris bróðir hennar gerði. Bahama. Sælusvipur kom á andlit Deboruh þegar hún mundi eftir hvítum sandinum sem hún og Jeffrey höfðu legið í þegar þau fóru til Mexíkó áttatíu og tvö... ,,Elska ég kannski enn Jeffrey? hugsaði Deborah og klóraði sér undir svitastorknu ennisbandinu.
Nóg að sinni. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég ekki hinn merki íslenski rithöfundur Birgitta Halldórsdóttir. Kvöldið er óráðið en mætti gjarnan vera varið heima við í rólegheitum. Líkur eru hins vegar alltaf hverfandi á því að svo sé eða að svo verði, því krónískt eirðarleysi á það til að brjótast út í mér og þá er tekist á við það með því að fara út og umgangast fólk. Ég einhvern veginn er ekki þessi týpa sem er heima að drekka grænt te.
Ó, í sambandi við plötu ársins, þá hlýt ég að velja þá sem hefur verið mest spiluð og ég má heldur ekki plata. Held það sé Miles Davis. Aðrir sem kæmu til greina væru India Arie, Eva Cassidy eða Beth Gibbons. En nú hætti ég, þetta lítur út fyrir að vera Þórisblogg. Síðar.

|

föstudagur, janúar 30, 2004

Frétt dagsins er auðvitað sú að Sigga Árna er fréttastjóri Stöðvar 2. Hér á Útvarpinu stendur yfir kveðjuhóf henni til heiðurs. Var að tala við Ingimar og ég sagði honum að eyru hefðu veggi. Hann skildi mig samt. Kvöldið er óráðið. Þórir er að kynda undir einhverju skralli, Röskvuskralli. Hann er einmitt maðurinn sem er svo pólitískur eða nýorðinn það. Pólitík smólitík eins og hann sagði hér í eina tíð.
Gærkvöldið var erilsamt á Hverfisgötunni. Fíknó kom ekki enda ekkert dóp hjá okkur Siggu en margir aðrir komu, í flatböku og pönnsur. Kannski Betty Crocker-mennirnir komi og nái í mig Stóð sveittur við eldavélina svo það bogaði af mér svitinn. Helgarfrí fram undan... Fínn vinnudagur að baki, byrjaði hann í Þjóðleikhúsinu og lauk honum í hátíðarsal HÍ. Dagskrá um heimastjórnina og viðhorfskönnun um jafnrétti. Síðar. Góðar stundir.

|

fimmtudagur, janúar 29, 2004

Ég þurfti að leggja hart að mér við að muna hvað ég var með í hádegisfréttum. Svo kom það. Peningaþvætti. Nú á afkoma Sjóvár-Almennra hug minn allan... Það er Daloon-dagur í dag.

|

Mér leiðist í vinnunni og það kemur örsjaldan fyrir... Drepyndið að IcelandExpress skuli ekki mega segja flugleiðir. Held Mogginn hafi sagt að skírskotunin í Flugleiðir væri augljós. Mbl. tókst að orða þetta mjög skemmtilega.

|

Ég blogga eins og vindurinn...

|

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Bradford? Bradford? Hvað er að? Bradshaw og ég biðst innilega fyrirgefningar, Þórir hefur þegar fyrirgefið mér þó þetta sé allt að því ófyrirgefanlegt.
Hef ekkert bakað í næstum viku sem er ljómandi gott. Var farinn að óttast að mennirnir á hvítu sloppunum kæmu og sendu mig út til fyrirheitna landsins á Betty Crocker stofnunina; ekki Betty Ford heldur Crocker, þessi með sleif í stað flösku.
Fíknó bankaði upp á hjá mér í gær, ekki í fyrsta skipti. Eða var það rannsóknarlögreglan? Veit þetta þarfnast frekari útskýringa en til þess er enginn tími. Síðar um það.
Þessi síða er að verða svona stuðningur og fræðsla fyrir tileyga. Ég þakka fyrir þessi gríðarlegu viðbrögð úti í þjóðfélaginu, ólíklegasta fólk hringir, hefur samband á einn eða annan hátt eða stoppar mig úti á götu og segist líka vera tileygt. Það styttist í stofnun samtakanna Regnbogatileygir. Stefán Karl verður líka þar, hann má ekkert aumt sjá. Held að við sem þjóðfélagshópur séum beitt misrétti. Sem minnir mig á að ég hef lengi ætlað að setja á oddinn baráttumál litblindra...
Fréttastofufundur og Ölstofa það sem eftir er kvöldsins. Útvarpsvakt á morgun og hinn. Frönsk kvikmyndahátíð er einhvers staðar á plani næstu daga...

|

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Er svo sammála Dóu. Jón Ólafsson, hinn góði, er ekki kynþokkafullur. Hann er kannski krúttlegur en aldrei kynþokkafullur. Íslendingar hafa aldrei vitað hvað kynþokki er, þeir hafa alltaf kosið fólk sem er tíðir gestir á sjónvarpsskjám landsmanna en er svo gjörsneytt öllum kynþokka, samanber það að sama sjónvarpsþulan var kjörin kynþokkafyllsta kona landsins ár eftir ár á Rás 2. Hugmyndaflug Íslendinga er sumsé ekkert ógurlega mikið og nær ekki út fyrir sjónvarpsdagskrá RÚV. Og svo ég dragi nú aðeins í land, þá er sumir á skjánum að springa úr kynþokka. En bara sumir.
Vil til gamans geta þess að ég fékk eitt atkvæði í kjörinu í fyrra. Það var atkvæði konu sem síðar átti eftir að hampa kynþokkatitlinum fyrir hönd kvenþjóðarinnar. Hvað skyldi það segja okkur?
Ég komst einhvern tímann að þeirri niðurstöðu að sjálfsöryggi væri stór þáttur þess að vera kynþokkafullur; þegar fólk er öruggt, afslappað og ber sig vel. Síðar. Vil benda á blogg Siggu systur. Skemmtilegasti bloggarinn.

|

Þetta er nú bara pínlegt. Ég er greinilega ekki eini maðurinn sem er í svona Carrie Bradford skapi. Var að labba inn á Kaffibarinn með lappann og hér er greinilega enginn maður með mönnum nema hann sé með fartölvu. Hér sitja menn og konur á hverju einasta borði og hamra á lyklaborð. Ætli þetta séu ekki allt djúpar hugrenningar um samskipti kynjanna og kynja almennt, í anda Sex and the City? Held það væri samt svalara að sitja hér tölvulaus og gefa skít í alla hina.
Bóndadagurinn. Hann fór fram hjá mér enda enginn bóndi til staðar. Svo styttist í Valentínusardaginn en það þykir mér leiðinlegur og bandarískur dagur. Kýs frekar að halda upp á daginn eftir hann, San Faustino, dagur heilags Fástínusar en það er dagur einhleypra.
Labbaði í Góða hirðinn áðan en fann ekkert sem freistaði. Er alltaf svona hálfpartinn að leita að uppstoppuðum lunda, hef alltaf verið sérlega veikur fyrir þeim, eins og þeir eru nú skemmtilega kitsch. Held hann færi vel í stofunni við hliðina á öðrum stofustássum eins og til að mynda Nordfag borðfánanum.
Fór á Kaldaljós í gærkvöld með Möttu, Arndísi og Hlédisi. Hún var góð, sjaldan sem ég skæli í bíói. Sonur Ingvars leikur gríðarlega vel, eins og pabbinn. Matta var samt ekki sátt. Hún vill bara myndir sem enda vel, þar sem allir giftast, eignast börn, eru hamingjusamir til æviloka og ekkert illt hendir. Ég er minna fyrir svoleiðis. Rúntuðum svo eftir bíó, átum bragðaref úr Snælandi, keyrðum út í Gróttu og héldum áfram í S-leiknum okkar. Rifjuðum upp SVitastíginn og það sem mér fannst fyndnast, SGott í gogginn. Það þarf svo lítið til að gleðja mann.
Oli Veigar, takk kærlega fyrir þitt innlegg, takk fyrir að hafa góðan húmor og takk fyrir að vera á jafneinföldu húmorsplani og ég. Ég varð skyndilega miðpunktur athyglinnar á Kaffibarnum þegar ég las GEimskip og GEldsmiðjan og skellti upp úr.
Eru aðrir en ég sem eru hættir að les blogg jafnbókstaflega og þeir gerðu? Ég stend mig nefnilega að því að skanna bara fleiri og fleiri og velja úr búta sem vekja áhuga minn...
En í dag er dagur til að gleðjast. Sigga systir var að fá helgarvinnu í Sandholt-bakaríinu sem þýðir vonandi að hún kemur alltaf klyfjuð heim úr vinnunni með afganga sem ég er þá boðinn og búinn að koma í lóg. Vona þess áætlun mín standist.

|

mánudagur, janúar 26, 2004

Verð ég að segja satt þegar ég hef valið plötu ársins? Má ég ekki bara nefna einhverja sem er hipp og kúl í stað þess að segja til að mynda frá því að ég hafi hlustað mikið á eitthvað gamalt og lummó? Ég var t.d. að uppgötva Beck um daginn, diskinn Sea Change, alveg satt. Þó svo Fríðu finnist Vinir vors og blóma æðislegir þá mundi ég fremur kjósa Beck...
Ég og Sigga systir erum að fara á Línu Langsokk með Sigga og Agnesi, litlu frændsystkinum okkar, á laugardaginn. Þá verður nú aldeilis gaman. Og litli bróðir var að trúlofa sig, þetta gat hann strákurinn. Sótti um starf áðan, sama starf og Ragnar og Gulli sóttu um, svona í bríeríi. Engin Panna á seinasta sunnudag, því miður, þá stólum við bara á næstu helgi.
Og ég er orðinn alveg sáttur við að vera kannski stundum pínutileygur. Fólk virðist taka mismikið og ekki eftir þessu. Maður fer nú ekki að verða komplexaður yfir þessu, smámáli. Hugsaðu bara um öll hungruðu börnin í Afríku, mundi mamma segja, hvað þau eiga bágt... En sú aumingjalógík hefur aldrei virkað á mig. Ég held það geti allir barmað sér yfir einhverju. Ég er sáttur, ekkert bitur.
Við Þórir fórum á Mokka í dag, skemmtum okkur við að setja S fyrir framan nafn staðarins, SMokka, eins og við gerðum einu sinni á djamminum með Ásdísi og Möttu á Laugaveginum og höfðum gríðarlega gaman að. Mér fannst það samt áberandi fyndnast þá. Það var allt að því orðið vandræðalegt hvað mér þótti uppátækið fyndið. Svegamót, Svínbarinn, Skapital, Sölstofan og svo framvegis.

|

Kastljós, Kaffi m. Þóri á Mokka, Bjarni í Bónus, bíó m. Möttu o.s.fv. Stikkorð. Er að ná mér eftir vinnutörn helgarinnar á Ölstofunni, sem var nokkuð strembin. Síðar þegar tími gefst.

|