hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

laugardagur, júlí 19, 2003

Svefnleysi. Tveggja tíma svefn í nótt, fjórir tímar í gærnótt og þrír þar áður. Gengur þetta? Ansi mikil vinna þessa dagana, skrýtnar vaktir frá því sex á morgnana til tvö á daginn. Svo blossar upp krónískt eirðarleysi á kvöldin sem veldur því að ég sit að sumbli á kaffihúsum borgarinnar, ýmist með kvenpeningi eða kollegum af Fréttastofunum, langt fram eftir nóttu. Í gærkvöld enduðum við Þórir og Kata Lundúnahreppstjóri í grilli hjá Möttu og Arndísi í Ásgarðinum, þangað kom Una líka. Þar sátum við til að verða tvö, ég svaf reyndar í sófanum á Kötu og Þóri, mestan hluta samkomunnar og var ekki hrókur alls fagnaðar. Matta sumarstúlka var skaðbrennd á vinstri öxl eftir heitan sumardag. Stúlkurnar veittu vel; grillket, bjór og rauðvín úr karöflu. Þrátt fyrir að ég hafi sofið af mér góðan part teitisins í gær, þá hef ég varla misst af miklu. Þau tala hvort eð er bara um typpi og stráka. Sumir hlutir breytast aldrei. Svaf svo frá tvö til kortér í fimm í nótt þegar rútubílstjórinn Matthías hringir í mig og bíður mín fyrir utan klámbúlluna og gay-centrið að Hverfisgötu 82. Náðum í 12 Ítalí á Hótel Plaza og drusluðum þeim, ég dottandi út í Keflavík. Þá var djammið enn í fullum gangi niðri í bæ og Þórir drusla ekki einu sinni kominn heim. Var kominn hingað upp í Útvarp klukkan hálfsjö í morgunsárið, lagði mig í hálftíma og þá tók við aukavakt frá sjö til tíu. Við Anna Kristín lærlingar vorum á nýrri vakt til að læra hvernig málin gengju fyrir sig. Nú getur maður ekki tekið sér orðið lærlingur í munn án þess að hugsa til Monicu og Hvíta hússins. Ekkert krassandi í þá veru gerðist í Efstaleitinu í morgun.
Jú, Gulli, ég var var hálf úrmagna og örvinda eftir þessar tvær færslur á einum og sama deginum. Og ég væri alveg til í að vera að lesa eitthvað eftir Ólaf Jóhann eins og þú þessa dagana. Maður dettur svo inn í bækurnar hans, þær eru það góðar. Mín bíður hins vegar lestur um Stokkseyrarbakka þar sem þangað fer ég á morgun með enskan hóp af skemmtiferðaskipi, reyndar líka aðeins á Reykjanesið; Kleifarvatn o.s.fv. Einhverjar 30 rútur fara vítt og breitt um Suðurlandið á morgun með farþega úr skipinu. Okkar hópur étur humar og súpu á Eyrarbakka.
Annars er maður hálforðlaus yfir veðurblíðunni þessa dagana. Fór á Austurvöll í gær og hitti þar Þorvald, röltum kringum Tjörnina og sleiktum sólina á Austurvelli og átum ís. Á fimmtudagskvöldið hittist Fréttastofufólk á Ölstofunni, það var ógurlega gaman. Hitti Þórunni fyrr um kvöldið á Vínbarnum og hún var dúndurhress eins og alltaf. Það fór auðvitað svo að maður drakk nokkra bjóra. Gleymdi auðvitað hjólinu fína, græna fyrir utan Ölstofuna þegar ég gekk heim og þegar ég svo hafði pantað stóran leigubíl fyrir mig og fákinn klukkan að ganga sex morguninn eftir, á leið í vinnu, þá var ég auðvitað hjóllaus. E-r misyndismaðurinn hafði stolið því af Ölstofunni og ég fann það svo neðarlega á Laugaveginum í gær, dulítið laskað og beyglað. Það fær þá bara að bíða þar til pabbi kemur næst í bæinn.
Perta er 1) hryssa 2) afundin, ótilkvæmileg kona. Þar hafið þið það.
Góðar stundir.

|

miðvikudagur, júlí 16, 2003

Andinn kom svo rosalega yfir mig á fjöllum, maður hafði svo gott tóm til að hugsa að ég var meira að segja búinn að semja heilu bloggpistlana. Þeir láta hins vegar eitthvað á sér standa þegar maður er kominn í borgina þar sem meira fer fyrir andleysi, vinnu og dægurþrasi. Matta, Arndís, Ásdís og Gugga voru í mat á Hverfisgötunni í gærkvöld og það var svona ljómandi gaman. Átum á svölunum í kvöldsólinni.

|

Það var svo gríðarlega gaman á Laugaveginum að ég er enn að ná mér. Vildi eiginlega óska að ég væri enn á fjöllum en það er víst ekki svo. Er aðallega í því að kroppa húðflögurnar af enninu og nefinu á mér eftir sólbrunann á fjöllum. Fengum útlandaveður allan tímann, 20 stiga hita á föstudag og útlandarigningu, svona beint niður, hlýtt og gott á sunnudaginn. Allir sprækir og ómeiddir, hópurinn góður og náði vel saman. Prumphúmor var gegnumgangandi alla ferðina, svona kúk og piss og átti hann einstaklega vel við.

|