hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Það að kitla,...

...er það fastur liður í tilhugalífi allra para, hversu stór þáttur og þá aðeins þegar fólk er að byrja að draga sig saman, eða alla tíð? Hef verið að velta þessu fyrir mér þó svo ég hafi kannski ekki misst svefn vegna þessa.

Bólurnar sem minnst var á í seinust færslu urðu fjórar. Ekki bara bóla heldur fjölskylda af bólum. Alveg eins og hjá Hunts tómatvörum. Saman mynduðu bólurnar blesu frá miðju enni og niður milli augabrúna. Gaman.

Amma Lotta bjargaði mér í morgun. Var afskaplega ráðalaus og ringlaður þegar ég settist inn í Metroið í morgun. Nokkuð viss um að ég hefði verið að gera stór mistök. Sá krónu á gólfinu, varð hugsað til ömmu Lottu, og tók hana upp. Því hvað segir amma Lotta alltaf? Jú, ef litlu peningarnar koma ekki til þín, þá gera stóru peningarnir það ekki heldur. Amma segir líka að við Sigga systir séum einu litlu börnin sem eftir eru í fjölskyldunni, þar sem við erum enn einhleyp og vitlaus á meðan aðrir hafa fullorðnast og lofast. Það þykir okkur systkinunum vænt um.

Finnst stundum eins og ég sé uppfullur af svona speki og línum, til að lifa eftir, eitthvað sem maður fer stundum með eins og möntru. Í kvöld hef ég t.d. tautað fyrir munni mér að tilfinningar séu fyrir aumingja. Hef haft þörf fyrir það í kvöld og svo er góð vísa aldrei of oft kveðin.
Svona gæti ég haldið áfram. Sætt fyrir sæta, alltaf að gera allt sem mann langar til; með heilbrigðri skynsemi, ein píkan annarri lík o.s.fv.

Í fréttum í dag var meðal annars það að kaffi væri hollt. Maður hefur heyrt svo margt í gegnum tíðina, hitt og þetta er krabbameinsvaldandi, kolvetni eru slæm eitt árið en góð næsta, meira að segja fæðupýramídanum er breytt... Niðurstaðan er sú að maður á engu að trúa, heldur kæra sig kollóttan, éta og gera allt sem mann langar til. Ætli maður fari hvort eð er ekki úr krabba fyrr en seinna...

|

mánudagur, febrúar 21, 2005

Af drama, baði, bólum og blautbolskeppni

Jæja. Mér er orða vant. En samt ekki.

Lykta af hamborgurum; því næ ég af í sturtu. Hendurnar á mér lykta af kaffi og eru hálfbrúnar af korg. Því næ ég ekki af. Svo er ég með tvær fínar bólur, aðra á miðju enninu, hina mitt á milli augabrúnanna. Þær eru hornréttar og allt. Íris yrði ánægð með mig, hún sem bloggaði nýlega um Maxwell og ósýnilega þríhyrninga.

Lá í baðkarinu í tvær klukkustundir, síðdegis á laugardag. Óóóskaplega gott. Hlustaði á nýjan disk Emilíönu Torrini sem pabbi gaf mér um daginn. Óhætt að mæla með disknum.

Dembdi hálfum bjór yfir brjóstin á barþjóninum sem var að afgreiða mig á Park á laugardagskvöldið. Hún var í hvítum þröngum bol, sagði að þetta væri ekkert mál. Mér þótti þetta afskaplega leitt. Hún hefndi sín samt með því að láta mig ekki fá Dankortið mitt til baka. Það uppgötvaði ég fyrst í gær þegar einhver Jonas hringdi í mig og sagðist hafa fengið kortið mitt, og týnt sínu, á Park um helgina. Skrallið á laugardagskvöldið var annars ógurlega skemmtilegt. Svaf klukkstund milli átta og níu og mætti svo kampakátur og rásandi til vinnu.

Verð ég að éta það ofan í mig að konur hafi minni kynhvöt en karlar? Langaði svo að trúa því að það væri ekki rétt. Vinkonuhópurinn sem ég bar þetta undir um daginn, sagði þetta hárrétt. Lauslæti og brókarsótt homma styður þetta líka, á meðan ég held að kynvilltar konur séu rólegri í tíðinni. Bendi á athyglisvert blogg Gulla um að karlkyns öfuguggar parist ekki...

Er feginn því og held reyndar að það séu margir fleiri, að þrítugsaldur sé hinn nýi tvítugsaldur, fertugsaldur hinn nýi þrítugsaldur... Fólk nýtur lífsins svo mikið lengur í dag. Held þetta þýði að ég verði bara 18 í næsta mánuði en ekki 28? Ég? Hræddur við að eldast?

Hver er sinnar ógæfu smiður, er fyrirsögn sem ég las í Berlingske Tidende um helgina. Margt til í því. - Ef maður finnur sig í skítlegri og slæmri aðstöðu, á maður að gera eitthvað í því. Gott prinsipp. Góð lokaorð.

|