Það að kitla,...
...er það fastur liður í tilhugalífi allra para, hversu stór þáttur og þá aðeins þegar fólk er að byrja að draga sig saman, eða alla tíð? Hef verið að velta þessu fyrir mér þó svo ég hafi kannski ekki misst svefn vegna þessa.
Bólurnar sem minnst var á í seinust færslu urðu fjórar. Ekki bara bóla heldur fjölskylda af bólum. Alveg eins og hjá Hunts tómatvörum. Saman mynduðu bólurnar blesu frá miðju enni og niður milli augabrúna. Gaman.
Amma Lotta bjargaði mér í morgun. Var afskaplega ráðalaus og ringlaður þegar ég settist inn í Metroið í morgun. Nokkuð viss um að ég hefði verið að gera stór mistök. Sá krónu á gólfinu, varð hugsað til ömmu Lottu, og tók hana upp. Því hvað segir amma Lotta alltaf? Jú, ef litlu peningarnar koma ekki til þín, þá gera stóru peningarnir það ekki heldur. Amma segir líka að við Sigga systir séum einu litlu börnin sem eftir eru í fjölskyldunni, þar sem við erum enn einhleyp og vitlaus á meðan aðrir hafa fullorðnast og lofast. Það þykir okkur systkinunum vænt um.
Finnst stundum eins og ég sé uppfullur af svona speki og línum, til að lifa eftir, eitthvað sem maður fer stundum með eins og möntru. Í kvöld hef ég t.d. tautað fyrir munni mér að tilfinningar séu fyrir aumingja. Hef haft þörf fyrir það í kvöld og svo er góð vísa aldrei of oft kveðin.
Svona gæti ég haldið áfram. Sætt fyrir sæta, alltaf að gera allt sem mann langar til; með heilbrigðri skynsemi, ein píkan annarri lík o.s.fv.
Í fréttum í dag var meðal annars það að kaffi væri hollt. Maður hefur heyrt svo margt í gegnum tíðina, hitt og þetta er krabbameinsvaldandi, kolvetni eru slæm eitt árið en góð næsta, meira að segja fæðupýramídanum er breytt... Niðurstaðan er sú að maður á engu að trúa, heldur kæra sig kollóttan, éta og gera allt sem mann langar til. Ætli maður fari hvort eð er ekki úr krabba fyrr en seinna...