hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

mánudagur, desember 01, 2003

Mánudagur á Hvolsvelli heima í Njálsgerðinu. Stoppa hér í eina til tvær nætur, ætlunin er jafnvel að taka í pensil í Bræðraborg, húsi bræðra minna.
Sunnudagurinn var fínn. Pönnufundur hófst hjá Gulla um klukkan ellefu, eftir þriggja tíma svefn; fyrirlesarinn okkar forfallaðist en það kom ekki að sök. Eins og vanalega var nóg að eta. Pönnuhafi er enn sá hinn sami og átti í raun að halda Pönnuna og það er ekkert hann Gulli okkar þrátt fyrir að hafa sýnt viðleitni. Yfir þessu hvílir að sjálfsögðu mikil leynd en ég get svo sem ljóstrað upp að sumir hafa verið duglegri við að rækta frændgarðinn en góðu hófi gegnir. Við skiptumst á sögum eins og vanalega og gengum ríkari út í kuldann. Ég fór í jólahreingerningu á Ölstofuna kl.14, eftir að hafa unnið þar alla nóttina áður. Aðfaranótt laugardagsins var útgeislun mín meiri en vanalega, ég gjörsamlega úðaði kynþokka af barnum á Ölstofunni (nú mundi Þórir segja mér eins og vanalega, að ég sé ímyndunarveikur) en þetta kvöld þurfti ég gjörsamlega að hrista af mér kvenfólkið. Það þarf svo sterk bein eins og þar stendur... Rassinn á mér fékk til að mynda sína fyrstu tvo kvenkyns aðdáendur. Þær sögðu alla sölu á barnum rassinum á mér að þakka, veit nú ekki með það.
Eftir hreingerningu á Ölstofu og bjór fór staffið á Sportkaffi þar sem ég svaf yfir Chelsea - Manchester Utd. Þreytan var það mikil að sveittir, hlaupandi, móðir karlmenn á besta aldri náðu ekki einu sinni að halda mér vakandi. Náði að sofa í tvo tíma áður en við mættum á Argentínu í jólahlaðborð til Gulla og Siddýjar. Mjög notalegt, gott að borða og þjónustan góð. Úthaldið var samt sem áður ekki mikið, var kominn heim fyrir klukkan tvö.
Það er svo mikið að gera að ég hef ekki komist í ræktina í hátt í viku. Það endar bara illa, maður hleypur í spik. Hitti Möttu og Ásdísi líklega á föstudaginn, átum pizzu saman heima hjá Möttu og tókum eitt íslenskuhorn. Töluðum um slæma málkennd unglinga og þvíumlíkt. Það er svo gott að geta hleypt fræðimanninum og nirðinum út í sér í réttum hópi. Og þar koma Matta og Ásdís fyrst upp í hugann, áhugamenn um íslenska tungu.
Andleysi og afslöppun á Hvolsvelli.

|