hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

laugardagur, apríl 09, 2005

Þá er það ákveðið...

...lendi á Keflavíkurflugvelli 6. júní næstkomandi. Dagný D. H. japanskur sendráðsritari í orlofi mun ná í mig á mallandi drossíu. Endurfundir. Eitthvað að hlakka til.

Hvort er ríkara í fólki, ótti við höfnun eða það að vera talinn heimskur? Bara svona vangavelta.

Nýr liður í þessu bloggi, bara í dag... Sá svo skemmtilegt klipp frá Íslandi í dag, með Svanhildi vinkonu og Þórhalli. Fífl dagsins, er Gunnar Þorsteinsson í Krossinum. Til hamingju, Gunnar. Samt er eitthvað fyndið við það að sjá fólk rífast um orð í hundgamalli bók, orð innblásin af Jesú Kristi : ). Fussumsvei og hallelúja, rassinn á mér. Kynvillingur finnst mér engu að síður skemmtilegt orð.

Síðar.

|

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Er orðinn ískyggilega...

...vanur því að svara nafninu Kevin. Bráðum hætti ég að gegna mínu rétta nafni. Kann því ágætlega alveg að heita Kevin.

Hvað er hægt að afsaka fjárútlát lengi með því að maður reyki ekki og að pening sé því ávallt vel varið úr því hann fari ekki í sígarettur?

Í sunnudagsblaði Politiken var grein um stór- og mikilmennskubrjálæði Íslendinga. Magasin, Sterling og svo Bobby Fischer. Ætlar þetta engan endi að taka? Er það rétt að utanríkisráðherra hafi sagt að það væru svo margir veikir á geði á Íslandi að litlu breytti þó við fengjum einn í viðbót?

Hér í landi er umræða um klæðaburð grunnskólakennara. Þeir þykja svo slæmt fordæmi, eldri karlkennarar í slitnum, hangandi gallabuxum og kvenkyns ungkennarar í klæðlitlum plöggum og magabolum sem trufla einbeitingu pilta á hvolpaskeiði. Um þetta þarf sem sagt að setja reglur. Það er margt í mörgu.

|