hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

miðvikudagur, janúar 02, 2008


Á gamlársdag skein sól...

...í Kaupmannahöfn. Stemningin var næstum því eins og á myndinni, tilfinningin var alla veganna sú sama og sólargeislarnir langþráðir. Þegar daginn tekur að lengja er tilefni til að fá sér sjúss og kætast. Tilfinningin fyrir árinu 2008 er góð. Árið hófst með hausverkjatöflum og fréttum af óléttu. Á nýarsdag skipti ég um slöngu/barka í sturtunni á Bitru. Það óx mér dálítið í augum en hjallurinn reyndist yfirstíganlegur. Með þessu áframhaldi verð ég farinn að snikka og fræsa, veggfóðra og leggja gólffjalir í fiskibeinamynstri fyrr en varir, vitiði til. Kannski verð ég einn góðan veðurdag eins og pabbi minn, get allt.

Jólin komu annars og fóru, fjölskyldan kom til okkar, úr því Múhameð fór ekki til fjallsins.

Mér er meinilla við helv... Facebook. Hefur allt þetta fólk ekkert annað að gera nema taka próf um hver sé heitur, hver sé ástríkur eða hver horfi á Matlock? Facebook er bóla sem springur, svona eins og einhver sagði um alnetið hér um árið.

Á eftir ætla ég svo að reyna að póstleggja seinustu jólakortin. Póstkössum Kóngsins Kaupmannahafnar var nefnilega læst þann 22. desember. Fíflin og hálfvitarnir (útlendingar eins og ég) sem ekki fylgja reglum eins og allir almennir Danir, fengu einfaldlega ekki að senda jólapóst; hann á að póstleggja fyrir 20. desember. Og svo á að hjóla hægra megin á hjólastígunum í þessu landi, en útlendingum gengur illa að læra það líka.

|