hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

föstudagur, september 26, 2003

Alveg er það nauðsynlegt að fara svona út á land svona stundum til að komast nær rótunum, út á landi fólk er svo sérstakt og hér er allt svo frumstætt... Er nefnilega á Hvolsvelli, langt í burtu frá siðmenningunni í smáþorpinu Reykjavík, einu ,,stórborginni" á Íslandi. Er í góðu yfirlæti eins og vanalega hjá mömmu og pabba, við Sigga skutumst síðdegis með pabba. Kíktum áðan á litlu frændsystkinin Agnesi og Sigga og svo á Pétur og Kára sem voru að vinna í húsinu sem er óðum að taka á sig mynd. Ég er ekki liðtækur í byggingarvinnu og hef aldrei verið. Hef hins vegar margoft boðið fram hjálp mína við að mála, þegar þar að kemur og vona að þeir þekkist það.
Rakst á hann Þorvald í dag, það var óvænt ánægja, hann er nýkominn úr reisunnni sinni með Gísla, frá Frisco og Lundúnum. Það hefur ekki verið amalegt. Eins og vanalega komum við Þorvaldur víða við á okkar spjalli enda sérlega málglaðir menn. Ég er að komast að því að ég hef of mikinn frítíma þessa dagana, ég bakaði nefnilega kryddbrauð í gær og sænska piparköku í fyrradag !? Eitthvað verður maður að gera í öllum þessum frítíma. Ég hallast líka æ meir að kenningu Þóris um bökunarhneigð og það að óbeisluð kynorka sem ekki fær að renna sína réttu leið, brýst mjög svo oft út sem bökunarorka. Held ég sé talandi dæmi þess. Sigga systir, Kvennaskólaneminn, benti mér á að orku yrði aldrei eytt, heldur aðeins að henni er umbreytt í annað form. Þeir sem hafa borðað kökur og brauð á mínu heimili hafa því bragðað á kynorku minni, samkvæmt kenningunni... Verði ykkur að góðu.
Ömmurnar eru svo duglegar að blogga að maður hefur ekki undan við að lesa áður en færslurnar fara í skjalasafn. Mjög svo skemmtilegt blogg hjá þeim. Ég trylltist til að mynda úr hlátri þegar ég las blogg einnar ónefndrar um unaðinn sem fylgdi því að borða gott og vel þroskað epli... Píhí.
Hér á Hvolsvelli er skítakuldi og fyrstu norðurljós vetrarins sem ég sé. Hér er ég alltaf á jólunum. Vorum einmitt að hlæja að því við Sigga, ef við munum aldrei ganga út, þá komum við áfram alltaf á Hvolsvöll til mömmu og pabba, á elliheimilið, til að halda jólin hátíðleg. Sigga og Héðinn, einhleyp, um fimmtugt, mamma og pabbi á áttræðisaldri; fallegt, við öll saman á elliheimilinu.
Mér finnst það skelfilegt ef Microsoft ætlar að loka msn. Ég segi þá bara eins og Sigrún Kastljóspródúsent sagði: Hvað eigum við þá að gera í vinnunni? Heimur versnandi fer.
Á Hvolsvelli er ætlunin að halda kyrru fyrir fram á laugardag og halda þá í sollinn. Í fyrramálið ætla ég að kíkja á ömmu Lottu, hún er eldhress á elliheimilinu hér á Hvolsvelli, hún var að segja frá því að hún fer alltaf með pínulítinn saltstauk í matsalinn og stelst til að salta matinn sinn, þvert á ráð lækna um mataræði hennar. Amma er svo mikill rebel. O, maður á greinilega ekki langt að sækja það... Svona verð ég líka ef ég næ háum aldri.
Matarboð hjá Möttu og Ásdísi á laugardagskvöld og svo koma ofurgellurnar Kolla og Jósa í mat til mín á sunnudagskvöldið. Þær búa á Grettisgötunni og þar er sko oft brugðið á leik. þangað fór ég til dæmis á sunnudaginn seinasta og fékk heimabakað vínarbrauð að hætti Magneu mömmu Jósu. Lengra verður þetta ekki í kvöld, góða nótt og góðar stundir.

|

miðvikudagur, september 24, 2003

Nú get ég næstum farið að kalla mig forritara í símaskránni, ofan á allt hitt. Er gjörsamlega að hakka bloggsíðuna mína í mig og færa til betri vegar, með dyggri hjálp Steindórs. Í dag er kaldur dagur.

|

þriðjudagur, september 23, 2003

Já, ótrúlegt hvað hlutirnir gerast hratt á gervihnattaöld. Við Jóa erum á vakt uppi í Sjónvarpi, að róa taugarnar eftir skemmtilegt upphlaup í myndstjórn þegar þýðing, mjög svo óheppilega á filippeyskri konu, fór ekki í loftið. Það er skemmtilegra þegar enskuþýðing klúðrast, alla veganna er filippeyskan mín ekki upp á marga fiska.
Annars er dagurinn í dag fremur blúsaður. Bætti inn nokkrum prýðislinkum áðan, það er gæðafólk sem er að blogga. Á morgun er ég aðeins á Ölstofunni og í Kastljósinu.
Gulli var að gera góða hluti í dag, hann var að mótmæla því að hommum er bannað að gefa blóð, á mjög svo jákvæðan hátt, uppi í Háskóla. FSS-liðar söfnuðu saman og hvöttu gagnkynhneigt fólk til að gefa blóð... Verð að rjúka...

|

Hann Steindór var að hjálpa mér og nú hrúgast linkarnir inn...

|