Komið haust, napurt í dag og í gær, dagur fyrir trefla og vettlinga. Hef ekki undan við að svara símtölum þessa dagana, ýmist frá fólki sem vill fá mig í vinnu og á vakt og það án tafar, nú eða vinkonur og fyrrum kærustur sem hringja og segjast vera óléttar. Þó ekki eftir mig. Heiða Björg og Hildur Kristín eru með barni báðar tvær, til hamingju með það. Og svo er það enn ein sem ég get ekki greint frá á þessari stundu, og svo var sú fjórða að ganga út en það er enn trúnaðarmál sem stendur. Sú hugsun læðist að manni að aldurinn sé að færast yfir, maður er harkalega minntur á það þegar allir í kringum mann byrja að hrúga niður börnum, sem þýðir líka að þá verða giftingar um hverja helgi næsta sumar. Úff, erfitt að vera á þrítugsaldri. Ég slæ því sem sagt föstu að sú næsta sem hringi sé líka ólétt.
Það reynist vera óskaplega mikið að gera þegar maður er á bakvakt á ansi mörgum póstum. Það stefnir alla veganna í rólega helgi, engin Ölstofa og ekkert Sjónvarp/Útvarp. Tók eina Kastljósskriftuvakt með Erlu í vikunni til að komast inn í það og vinn líklega á móti henni í vetur ef ég vil. Tvær klukkustundir á kvöldi, tíu sinnum í mánuði, ágætis aur fyrir það. Destination Iceland hringdi áðan og vantaði ítölskumælandi leiðsögumann sem gæti flakkað næstu fjóra daga með fjórum ítölskum kvikmyndagerðarmönnum. Mér þótti verulega leitt að þurfa að hafna því en er fastur uppi í Sjónvarpi og Útvarpi í hinum ýmsu störfum. Er að þjálfa Jóhönnu, dóttur Fríðu í sminkinu í skriftustarf inni á Fréttastofu Sjónvarps. Það er sem sagt nóg að gera. Undirliggjandi er alltaf spurningin um hvað ég á að verða þegar ég verð stór? Í hvaða átt á ég að stefna?
Brynhildur vinkona, blaðakona á Fréttablaðinu var að kaupa íbúð á Þórsgötu en ætlar í janúar að leigja hana út og koma sér af landi brott. Hún var að eggja mig í að koma með sér og sú hugmynd leggst vissulega vel í mig, gaman bara að stinga af út í lönd og fara að tala tungum. Held hún stefni á Lundúni. En ég veit það ekki. Svo verð ég að fara að líta í kringum mig með mastersnámið, ákveða hvert ég ætla að fara. Ef ég ætla að byrja á því eftir ár, haustið 2004, verð ég að sækja um í mars, apríl... Ískyggilega stutt í það.
Læðan er aftur byrjuð að blogga og er það vel, gaman að fá hana aftur. Og svo eru það auðvitað Ömmurnar sem eru líka byrjaðar að blogga og eru helvíti góðar, ommurnar.blogspot.com.
Seinasta helgi á Ölstofunni var fín, var með Unu og Oddnýju á barnum. Ég var beðinn um að gerast bassaleikari í hljómsveit einhvers Svenna. Takk fyrir það, alltaf er maður að upplifa eitthvað nýtt. Hann sagði að ég væri svo bassagítarleikaralegur... Þá veit ég það. Held í rauninni mun frekar að hann hafi ætlað að pikka mig upp : ) Það er í raun sjálfgefið. Á föstudagskvöldið kom Benni barstrákur til okkar á Ölstofuna og deildi með mér reynslusögu sinni af því þegar hann brá á leik með unnustu sinni með smiðsbeltið sitt eitt klæða. Nú sé ég Benna alltaf fyrir mér með hamarinn dinglandi svona vinalega á lendinni. Benni er sko útskrifaður húsasamiður sem vinnur á Ölstofunni. Afskaplega geðugur piltur.
Er orðinn leiður á fréttaflutningi af Tvíburaturnum, ,,hryðjuverkum” og stríðsfréttum frá Írak. Við vitum að rúmlega sjötíu Bandaríkjamenn eru fallnir í Írak frá ,,stríðslokum” 1. maí sl. en ég vil fá að vita hversu margir Írakar (hryðjuverkamenn) hafa fallið á sama tíma. Annars er Bush og þjóð hans hætt að koma manni á óvart. Sjötíu prósent þjóðarinnar eru það vel upplýst og uppfull af áróðri að þau kenna Saddam Hússein og Írökum um árásina á World Trade Center. Úff.
Agga frænka kom færandi hendi um daginn, ég fékk ein þrjátíu bindi í bindasafnið. Sá sem þau átti bjó á elliheimilinu á Hvolsvelli en er nýfallinn frá og þá lá svo beint við að koma bindasafninu hans til annars furðufugls, mín. Held hann hafi heitað Þór frá Steinum, sá á elliheimilinu. Mér áskotnaðist meðal annars forláta rautt leðurbindi, nokkur lakkrísbindi, ein tvö með brúnni kjötsósu á, nokkurrra áratuga gamalli og svo nokkur hreint út sagt glæsileg Lexa bindi, 15 sm breið um það bil, ekta íslensk framleiðsla frá áttunda áratugnum. Nú vantar mig bara fleiri tækifæri og átyllur til að setja upp bindi og fara í jakkaföt. Við Sigga systir erum einmitt að fara í leikhús á laugardaginn; ætlum að sjá Pabbastrák í Þjóðleikhúsinu. Erum að reyna að nota öll þessi gjafabréf í leikhús sem hafa hlaðist á okkur.
Myndir frá Bilbao síðan í byrjun september frá, kynvillingaráðstefnunni þar, eru að skila sér inn á netið. Ljúfar minningar það. Í gærkvöld sáum við Marta María meðal annars myndir í vinnunni úr strandpartýinu góða sem komu á óvart. Annars var ég bara að klípa Steindór í vinnunni í gær. Ef ég væri klár á tölvur og net þá mundi ég linka á hann hér og svo annars staðar á síðunni. En það bíður betri tíma. Mig vantar hjálp í þeim efnum. Góðar stundir.