hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

mánudagur, febrúar 28, 2005

Stina er...

...fastagestur á Laundromat. Stina er Finni sem drekkur þrjá til fimm Café Latte á dag, stundum sódavatn og kakó inn á milli. Hún vinnur í móttöku hjá stóru fyrirtæki hér í Kaupmannahöfn. Frítíma sínum ver hún í vinnunni minni og skrifar dagbók, eigin þanka. Hún gleymdi dagbókinni um daginn, í nokkrar klukkustundir... Ég faldi hana í djúpri skúffu, geymdi hana eins og sjáaldur augna minna. Las ekki staf.

Linus er annar fastagestur. Linus er danskennari; vinnur í sömu götu og Laundromat. Hann situr löngum stundum, drekkur hvítvín og vinnur að nýju kennsluefni sem mun bylta tangókennslu um víða veröld. Hann er nú þegar með efni í heila bók.

Get annars sagt nokkuð öruggur að ég þekki Íslendinga úr kúnnahópnum í 90% tilvika, bara af fasi þeirra, áður en þeir opna munninn, sem er hreint ótrúlegur andskoti. Þeir eru kaldari en Danir, Danir eru mýkri. Eflaust er ég markaður af því sama...

Þegar ég var lítill strákur fékk ég oft að raka á mér kjammana með Braun rakvél afa Tona á Grund, að sjálfsögðu með plasthlíf á blöðunum... Nú er draumur minn orðinn að veruleika þar sem ég nýlega festi kaup á eigin Braun rafmagnsrakvél. Það sem nú er breytt er að skeggrótin er komin og plasthlífin farin. Skeggrótin er reyndar ekki nýkomin, ætli það hafi ekki gerst fyrir rúmum áratug.

Leið eins og ljóta bera gaurnum í Vinum, klukkan að ganga tvö í gærnótt. Stóð á nærhaldinu einu saman við stóra lága eldhúsgluggann minn og tróð í mig ólífum. Varð ekki var við einmana konuna sem býr á móti mér fyrr en of seint. Þá stóð hún í sínum eldhúsglugga, með karlkyns vin í heimsókn og starði á mig. Urðum öll vandræðaleg, þau hurfu mér sjónum, flissandi og sjálfur hvarf ég bak við skáphurð. Átti ég að þykjast ganga niður stiga og hverfa niður fyrir eldhúsborðið?

Í dag er útborgunardagur. Því er orð dagsins: Ég kaupi, þess vegna er ég.

|