hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

föstudagur, febrúar 04, 2005

Hvers eiga ófríðir að gjalda?
Pistill nr. 2 um hégóma

Danskir fegurðarprinsar og prinsessur eru búin að opna stefnumótavef; beautifulpeople.dk. Þau voru orðin leið á öllu ófríða fólkinu. Í viðtali í Berlingske Tidende segir einn stofnenda síðunnar að fallegt fólk vilji fallegt fólk; sem sagt líkur sækir líkan heim. Allir geta sótt um að komast á vefinn en færri komast að en vilja. Ein af hverjum níu stelpum fær inngöngu, einn af hverjum tólf strákum. Þú skrifar einfaldlega prófíl og leggur inn mynd; fjöldi þeirra sem skoðar þig á þremur dögum ræður því svo hvort þú færð að vera með eða ekki. Fallega fólkið sem er búið að fá inngöngu, vegur sum sé og metur alla ljótu lúðana sem langar að vera memm. Um 80% þeirra sem reyna að fá inngöngu uppfylla ekki útlitskröfur og er vísað frá. Vefurinn er aðeins fyrir gagnkynhneigða og þá fá innflytjendur heldur ekki að vera með. Umhugsunar vert. Danir eru fyrstir í heiminum með svona fyrirbæri en verið er að koma á fót síðum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Stefnan er að opna beautifulpeople-bari þar sem beautifulpeople meðlimir geta hist án þess að þurfa að vera innan um ófrítt fólk. Og öll vitum við auðvitað hvað það getur tekið á taugarnar.
Skemmtileg andstæða við þessa vitleysu er kannski bara uglypeople.com?

Og af hverju er ég alltaf að lenda í því að vinir mínir eru baktalaðir fyrir framan mig? Er orðinn þreyttur á því. Viðbrögð mín geta verið margs konar... a) Ég get farið í fýlu b) Ég get stungið upp í dónann og sagt eins og er að hann sé að tala um vin minn c) Ég get látið eins og ekkert sé... Einhver?

Matta, Skratthea Skorrdal, kom óvænt til Kaupmannahafnar í gær. GAMAN.




|

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Vildi deila því með ykkur...

...af því það er gott að deila, að æ oftar minni ég sjálfan mig á pabba minn þegar ég staulast fram úr á morgnana. Það er reyndar ekki leiðum að líkjast. Virðist bara vera að koma í bakið á mér, í bókstaflegri merkingu, að hafa stundum gert grín að honum fyrir stirðleika og stirðbusalegt göngulag að morgni dags. Ég er sem sagt að verða tuttugu og átta eftir rétt rúman mánuð...

Og þá að Bíjonsei-keppninni. Það er hárgreiðslustofa inni á líkamsræktarstöðinni minni. Hvern einasta dag skemmti ég mér við að hlæja að hégóma klipparanna. Á stofunni vinna bara konur og þær eiga í harðri samkeppni við hver aðra, um hver sé sætust, best klædd og best til höfð. Þær ganga allar eins og Bíjonsei í myndböndunum (mín síða, mín stafsetning, ég ræð). Þær metast líkast til líka um það hver þraukar út daginn á sem fæstum salatblöðum. - Það sem enginn fær að vita og þær ræða ekki er keppnin um það hverri er mest illt í bakinu eftir að hafa staðið tólf tíma á flísalögðu gólfi á 12 sm pinnahælum. Nú eða þá keppnin um það hver hesthúsar mestu súkkulaði og ruslmat til að seðja æðisgengið hungur að kvöldi til, þegar hinar hárgreiðslukonurnar sjá ekki til. Og mér er skemmt.
Hégómi, hégómi, hégómi.

|

KJÖTMJÖLI Í FLÓA LOKAÐ?

Mátti bara til með að stela þessari fyrirsögn af íslenskum fréttamiðli á alnetinu. Finnst hún eitthvað svo skemmtileg. Íslensk.

Það hefur verið svo mikið að gera í vinnu að ég hef ekki mátt vera að því að blogga. Hef ekkert líf átt utan vinnu. Dagarnir hafa sem sagt verið hamborgarar og hyldeblomst. Bókin mín á að heita það.

Það er vor í Kaupmannahöfn. Eða allt að því. Farfuglarnir fóru aldrei neitt í fyrrahaust heldur voru um kyrrt. Og daginn er tekið að lengja. Mamma og pabbi væntanleg á sunnudag. Gaman.

Vaknaði með lagstúf á vörunum í gærmorgun. Frjálst er í fjallasal... Og hvað kemur svo?

Held ég sé hættur að hafa samband við fólk af skyldurækni. Skyldurækni er varla góður grunnur að vinskap. Punktur.

Var líka að velta því fyrir mér hvað samskipti á msn eru einkennileg. Er það eðlilegt að þykjast ekki vera tengdur þegar maður er það í rauninni, til að sleppa við að tala við fólk sem maður nennir ekki að tala við, sem maður hefur sagt upp, sem maður hefur svikið, sem hefur svikið mann eða sem maður hefur átt í útistöðum við? - Finnst þetta hallærislegt og hef ekki notað þetta. Er þess vegna líklegast alveg grunlaus ef einhver hefur ,,blokkað" mig, í annarri heimsálfu. En hvað veit ég svo sem? Ég sem held því fram að hreinskilni borgi sig.

Vinkona mín tekur 20 DK af kærastanum sínum fyrir að sofa hjá honum. Öll þeirra sambúð er farin að litast af þessum viðskiptum. Að koma með vatnsglas á náttborðið kostar 10 DK, það er hálf ástarmök. Þannig að ef hann færir henni tvisvar vatn, þá er engrar undankomu auðið. Þetta er kannski ekki svo vitlaust? Það snýst jú flestallt um peninga...

Kona dagsins er amma, Charlotte.

Síðar.

|