hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

föstudagur, febrúar 11, 2005

Textalengdarfóbía og nýir skeggtímar...

Var að renna upp fyrir mér, við lestur nokkurra bloggara, að ég er hræddur við að skrifa langan texta. Vaninn að skrifa knappan texta á kjarnyrtri íslensku og skera hann svo niður þegar skrifunum er lokið, er sterkur. Held þetta hái mér líka í samskiptum við fólk : ) Ég tala þá í stuttum hnitmiðuðum setningum og á erfitt með að lengja mál mitt. Kann bara að stytta mál mitt. Kemur þetta sér ekki illa þegar ég sest niður einn daginn og skrifa fjögurhundruð síðna skáldsöguna mína?

Held dagar skeggsins séu liðnir. Held ég sé ekki ,,Hveravallarveðurathugunarmannstýpanmeðhélaðskegg". Held ég sé meira þessi snyrtipinnatýpa...

Er fólk ekki of háð msn ef það saknar broskarla, fýlukarla, hissakarla og sólgleraugnakarla á venjuleg lyklaborð og á takkaborð farsíma? Ætli svona karlar sem tjái tilfinningar verði einhvern tímann viðurkenndir í prentmáli, bókum og blöðum?

Síðar.

|

Helvítis Valentínusardagurinn...

...nálgast óðfluga. Hann ætti samt að verða þolanlegri í ár en oft áður... Fyrir þá sem ekki vita það, þá er hægt að halda upp á dag einhleypra daginn eftir, það er San Faustino, ekki San Valentino. Allir ættu því að komast tiltölulega klakklaust frá þessum dögum.

Fór til Írisar vinkonu í gærkvöld. Át allan hunangs- og möndluísinn hennar. Unnustinn Kári er nefnilega í Bandaríkjunum þannig að ég er tilsjónarmaður Írisar á meðan. Hún er hins vegar minn tæknimaður. Alltaf. Hún sinnir öllum þeim störfum sem tæknimenn RÚV gerðu fyrir mig þegar ég bjó heima. Í gærkvöld fór ég t.d. til hennar með tölvuvanda sem hún leysti úr á skjótan hátt. Svo drukkum við lakkrísrótar- og piparmintute og töluðum dónalega.

Getur dagblað selt sálu sína og dansað fyrir peninga á meira afgerandi hátt en þann að setja IKEA auglýsingu á forsíðuna og eigið lógó út á spássíu? Þetta gerir metroexpress í dag.

Finnst alltaf jafnleiðinlegt að fara til lækna sem segja mér að það sé ekkert að mér. Varð hálfgramur í morgun þegar dr. Larsen sagði mér að hóstinn næði ekki ofan í lungu. Ég varð að una við þær ,,slæmu fréttir". Fékk engin sýklalyf eins og ég hafði ráðgert að fá. Fékk enga staðfestingu á því að ég væri með sýkingu ofan í lungum. Fékk bara staðfestingu á því og ekki í fyrsta skipti, að það er erfitt að gera mann ánægðan. Dr. Larsen gerði það alla veganna ekki. Svona er maður öfugsnúinn.

|

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Til mín frá mér

Keypti mér afmælisgjöf í dag, mánuði fyrir fram. Nefháraklippur. Þær kitla mig. Er ég nú orðinn fullorðinn? Ég sem vona alltaf að það gerist aldrei.

Held ég sé haldinn fælni við svona ruslpósta á netinu. Þeir sem hafa sent mér svona ,,inviteisjon" um hitt og þetta; ókeypis sms og ,,mobælnettvörk", hafa líklegast orðið varir við þessa fælni. Ég er samt að reyna að taka mig á. Hef hent öllum þessum póstum seinustu mánuði en hver veit nema það breytist...

Fríhelgi fram undan. Gaman.

|

mánudagur, febrúar 07, 2005

Hann reis upp á þriðja degi... með hor í jesúskegginu

...eftir erfið veikindi. Hélt á tímabili að ég væri að skilja við. Var með flensu sem gekk held ég barasta yfir á tveimur sólarhringum. Missti einn dag úr vinnu og tók út fyrir það, samviskubitið var að drepa mig ásamt flensunni. Tók ómælt magn verkjalyfja. Átti ekkert eftir nema að byrja að grenja, átti svo gríðarlega bágt, verkjaði og vorkenndi sjálfum mér óskaplega. Sársaukaþröskuldur karla er örugglega lægri en kvenna, er það ekki? Var það langt leiddur að ég var farinn að leiða hugann að eigin útför. Varð hugsað til pabba sem vill frekar hafa partý en jarðarför. Hann vill að fólk hafi gaman þegar það minnist sín. Komst að því að ég er ekki á sömu skoðun. Ég vil smájarðarför til að sjá hver mætir og hver skælir og svona. Þetta hugsaði ég í mókinu, alls ekki með réttu ráði. Pældi svo í því hvað mundi gerast þegar ég yrði jarðaður í næstu viku, yrði það ekki vesen að ég er utan trúfélaga? Það fengi enginn prestur að tala um jesú yfir mér, ónei! Enga hræsni og hallelúja yfir mínum jarðnesku leifum... Og hvar ætti að jarða mig? Sá fyrir mér stutta útför í félagsheimili. Logi Bergmann gæti kannski messað eitthvað yfir mér, sagt hommabrandara kannski... - Er næstum orðinn góður núna. ,,Viskívojs" hefur svo sem aldrei skemmt fyrir neinum held ég...

Mamma og pabbi eru annars búin að vera hjá mér. Gaman. Og það er kalt í Kaupmannahöfn. Labb, bjór, matur, kaffihús, bókabúðir, hönnunarbúðir, kaffibar hér, kaffibar þar... Var með þeim á Sticks n' Sushi á Istedgade í kvöld. Óskaplega gott að borða. Eins og seinast. Þau vildu að ég sýndi sér hvað Íris vinkona lærði í kynlífsþættinum í sjónvarpinu um daginn og kenndi mér. Ég hélt nú ekki. Fannst það ekki við hæfi og roðnaði. Þannig að við ræddum bara vandræðaleg augnablik í kynlífi þess í stað.

Ég er að læra að vera með skegg, í fyrsta skipti í lífinu. Er oftast með hor í því. Eða tannkrem. Þetta lærist.

Af hverju geri ég alltaf allt á síðustu stundu?

Af hverju vita ekki allir barþjónar að einfaldur martini er tvöfaldur? Urr.

|