hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

föstudagur, mars 26, 2004

Óskaplega slítandi dagar, barnaníðingsmál eru líklega meira slítandi en önnur mál. Og svo ráðstefnur hér og ráðstefnur þar. Púff. En nú er komin helgi og frívakt. Spilakvöld, sem er víst heima hjá mér, hefst eftir innan við klukkustund. Gaman. Helgi. Síðar.

|

þriðjudagur, mars 23, 2004

Er ekki frá því að það sé væg rotnunarlykt í loftinu sem þýðir bara það að vorið er á næsta leiti. Eiginkona sem ég minntist á í seinustu færslu er að sjálfsögðu Þórir Bjarnason, hann kemst líklegast næst því að vera ígildi maka, án þess þó að það þurfi að misskiljast.
Annars veit ég varla hvað ég á setja niður á tölvuskjá. Það bliknar allt við hliðina á tölvupóstinum sem ég fékk frá Siddý í gær. Hún er stödd í Norðurhluta Íraks, þar sem hún er að samhæfa störf nokkurra tuga hjálparsamtaka og stofnana. Ævintýri er ekki rétta orðið en hún er að gera ótrúlega hluti við enn ótrúlegri aðstæður. Að lesa þessi bréf hennar gefur allt aðra sýn en þá sem birtist í fjölmiðlum. Og Siddý er auðvitað í fjölmiðlabanni. Öryggisgæsla þarna er gríðarleg og hún fer hvergi nema í bíl og í fylgd með lífverði.
Svo var einhver að gauka því að mér, varðandi mál prestsins á Klaustri, hvað fordómar skinu í gegn í umfjölluninni. Málið hefði líklegast ekki vakið jafnmikla athygli, hefði presturinn átt mök við 15 ára stúlku en ekki pilt, eða hvað? Hann gerði engu að síður stór mistök.
Það virðist vera ákveðin ládeyða yfir meðlimum Pönnunnar þessar vikurnar. Langt líður á milli funda og það virðist varla tilefni til að kalla menn saman. Það var þó gert á sunnudaginn, í Breiðholtinu hjá Þóri. Átum eins og svín. Sigga systir var heiðursgestur. Veit ekki hvort þessi Panna var óvenjusubbuleg eða hvort mér fannst það bara af því litla systir var þarna. Langaði alla veganna nokkrum sinnum að rjúka á fætur og grípa fyrir eyrun á henni. En hún er öllu vön og hefur sterk bein.Pétur og Gulli mættu líka og þeir eru nú ekki beint þekktir fyrir að liggja á liði sínu og fara pent í hlutina... Þvert á móti.
Fríða ofurhjúkka er komin frá Prag og áætlað er að hitta hana og föruneytið annað kvöld.
Og þá er ég búinn að varpa frá mér vonum um flugfreyjuferil, mig sem hafði alltaf dreymt um að verða flugfreyja... Ætli það sé ekki pilsið og hælarnir? Sumarið er nefnilega bókað sem og allur tíminn fram að því. Útvarps- og sjónvarpsfréttir var það heillin. Eina örugga sumarfríið sem ég veit af verður ganga með Fréttastofunni. Í fyrrasumar vorum við átta sem gengum Laugaveginn í brakandi logni og tuttugu stiga hita fyrstu tvo dagana og svo blankalogni og volgri útlandarigningu þriðja daginn. Með því eftirminnilegra sem ég hef gert og því er tilhlökkunin mikil vegna göngunnar í sumar.
Og svo á vonandi að láta undan eirðarleysinu og fara af landi brott í haust, hvert svo sem ég fer og hvert sem tilefnið verður. Það er allt í vinnslu og skýrist á næstu vikum.

|

mánudagur, mars 22, 2004

Blogg á handahlaupum milli vakt, með sólbrunnar kinnar og freknur eftir dag í sundi og í bænum. Eftir rækt og Laugar og espresso með Þorvaldi; útréttingar með eiginkonunni og rómantískur göngutúr kringum Tjörnina. Bongóblíða.
Tónleikarnir með Damien Rice voru magnaðir, það verður erfitt að slá þá út. Er enn að melta þá og þeir verða bara betri og betri. Fór með Siggu systur á Þrjár Maríur í Borgarleikhúsinu í gær, verk Sibbu sem Kristjana Skúla leikur í. Gott. Bústaðurinn var ljúfur, pottur, svefn, lestur og góður matur. Matta átti afmæli í gær. Verð að rjúka. Síðar.

|