hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

föstudagur, nóvember 14, 2003

Hvað gerir maður þegar maður mætir í vinnuna og uppgötar að maður hafði verið svo bóngóður að skipta við Kötu Páls um vakt og er því alls ekki á vakt? Fjandinn, ég sem var búinn að hlakka til að mæta í dag. Vaknaði kl.7.15 eftir tæpra fjögurra stunda svefn og rauk á fætur. Var galvaskur þegar ég mætti enda er ég sjaldan á fótum á þessum ókristilega tíma sem er snemma morguns.
Í kvöld er hæfileikakeppni á Rúv sem ég hefði haft áhuga á að taka þátt í hefði ég fundið einhverja Dolly Parton til að taka með mér Islands in the stream. Hún fannst ekki og ég mun því ekki stíga á stokk sem Kenny. Mæti samt sem áður á keppnina og fæ mér bjór eða tvo. Vinnudjömmin niður á Markúsartorgi eru alltaf fín. Á svo vakt á morgun (þannig að bjórarnir verða ekki margir í kvöld) og svo Ölstofuvakt aðra nótt. Nóg að gera.
Matreiðslunámskeiðið hjá Shabönu var fínt. Það besta var samt eiginlega maturinn og félagsskapurinn. Þarna var mamma, Sigga systir, Brynhildur, Matta, Ásdís, Dagný og Titti. Ég held barasta að mig langi næstum í Hússtjórnarskólann, en þar fór námskeiðið fram.
Ég var að pæla í að kaupa mér hjól um daginn en held ég sé hættur við. Að vera á hjóli í umferðinni er svo stórhættulegt, ég mundi ekki lifa af eina viku. Ég er alltaf nauðhemlandi á Monzunni Siggu systur þá sjaldan ég stíg á hana. En hún fer nú líka að syngja sitt síðasta, Monzan það er að segja.
Davíð í Next er kominn með það verkefni að klæða strákana í Herra Ísland. Óréttlætir eru laun heimsins. Segi nú ekki annað. Davíð, áttu að klæða þá í beinlínis eða þarftu bara að velja á þá föt? Þú veist þú átt hauka í horni í okkur Þóri, fagrir karlmenn er okkur sameiginlegt brennandi áhugamál.
Sú hugmynd var að koma upp að við systkinin hættum að gefa hvort öðru jólagjafir og gæfum aðeins börnunum. Erum við virkilega orðin þetta gömul? Og svo hef ég auðvitað athugasemd við þetta, nú fara gagnkynhneigð systkini mín að hrúga niður börnum næstu áratugina, ekki ég. Ég mun sennilega gefa afkvæmum þeirra svona niðursoðnar jólagjafir, allar eins, ár eftir ár, t.d. myndaalbúm á línuna, Nivea after shave balm eða My first make up kit, nú eða ódýran minjagrip erlendis frá. Get ég þá ekki gert þá kröfu að þau gefi mér og ég varðveiti þá bara barnið í sjálfum mér í staðinn? Barneignir eru ekki áætlaðar hjá mér í nánustu framtíð. En samt aldrei að segja aldrei.
Sæl að sinni.

|

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Nú fær Gulli hland fyrir hjartað. Þrjú blogg frá mér á einu kvöldi. Sú var tíðin að ég hringdi í hann til að láta vita að ég hefði bloggað. Það fer að koma að honum að hringja í mig, hann virðist latur þessa dagana.

|

mánudagur, nóvember 10, 2003

Er ég að gleyma að linka á einhvern sem ég ætti að vera að linka á?
Og bústaðurinn var sem sagt fínn. Spiluðum, róluðum, sváfum, drukkum, grilluðum, prumpuðum og þar fram eftir götunum. Kom brunandi úr bústaðí gær og beint á Pönnufund sem var gríðarlega skemmtilegur. Að þessu sinni var gestafyrirlesari, hún Anna Svava, virkilega geðug stúlka, bekkjarsystir Bjarna í Leiklistarskólanum. Hún var ekki beint með fyrirlestur heldur vorum við með nokkurs konar málstofu, veltum upp spennandi málefnum og hún fékk forvitni sinni svalað. Ef við tökum þetta saman þá var heimsókn Önnu Svövu ágætis spark í rassgatið. Hún sagði okkur strákunum pínulítið til syndanna og fékk okkur til að hugsa, vera meira lifandi og kannksi þora að láta særa sig, stíga út úr þægilega umhverfinu. Umræðan var hispurslaus og ekkert dregið undan. Næsti gestafyrirlesari mun vera Kata Lundúnahreppsstjóri og þar á eftir kemur Svanhildur Hólm Valsdóttir Kastljósdrottning. Ámálgaði það við hana í morgun og hún þekktist boðið. Hmm, af hverju eru gestafyrirlesarar Pönnunnar bara stelpur? Umhugsunar vert. Mamma Péturs kíkti líka á Pönnuna og það var skemmtilegt. Svo voru sagðar sögur frá Danmörku en þaðan eru Gulli og Pétur nýkomnir.
Meðlimir Farandpönnunnar ákváðu líka að héðan í frá yrði leyndin meiri enda staður og handhafi Pönnu eitthvað sem ekki á að vera á allra vörum.
Eitt af því sem við ræddum í gær með Önnu Svövu, hún spurði reyndar af hverju allir hommar töluðu eins, þ.e. hefðu annað hvort eins rödd eða eins talanda. Athyglisvert og þetta var að sjálfsögðu krufið til mergjar.
Svo fórum við Gulli, Bjarni, Þórir og ég á Matrix Revolutions í Álfabakka. Fannst hún ágæt, ekkert spes. Seinast fór ég í Álfabakkann þegar ég sá Police Academy 2, ef mér skjátlast ekki. Alla veganna, bíóið var breytt. Eftir það fórum við á rúntinn, sáum íbúðina hans Bjarna sem hann fær afhenta bráðlega. Átum pylsur á Select og svona... En nú er löng og ströng vinnuvika fram undan.
Er reyndar að fara á indverskt grænmetismatargerðarnámskeið á miðvikudag, með fullt af skemmtilegu fólki. Við eigum að mæta með penna og svuntu til Shabönu í Hússtjórnarskólann kl.18 að Sólvallagötu 12 og svo má mæta með rauðvín til að drekka með afrakstri námskeiðsins seinna um kvöldið.
Sæl að sinni.

|

Ég held ég ætti að leiðrétta misskilninginn sem kom upp í minni seinustu færslu. Mamma braut engan sturtuklefa, hún reif bara niður sturtuhengið og það er allt annað. Og þeim sem fylgst hafa með sögunni get ég sagt það að hún er núna komin með kraga og er líklega illa tognuð í hálsi. Þanng að þetta er ekkert til að hlæja að, þið sem eruð að hlæja núna. Mamma er sem sagt komin heim og hún gaf syni sínum forláta hvítlaukspressu og sælgæti.
Svörunin á skrif mín um typpið á sjónvarpsstjörnunni hefur verið gríðarleg en nú er mál að linni. Þetta virðist það eina sem vekur áhuga fólks. Er það nema vona að maður hafi áhyggjur af siðferðisvitund almennings? Og Hjörtur og Þórir tóku þátt í umræðu um stafsetninguna á typpi og kann ég þeim bestu þakkir fyrir það. Typpi alltaf til vandræða.
Er að klára seinni vakt á Sjónvarpinu. Helgin var óskaplega ljúf. Titti, Heiða, Karó og Sabína fóru með mér í bústað í Húsafelli og þar höfðum við það náðugt. Borðuðum allan tímann, vorum reyndar öll orðin slæm í maga með tilheyrandi vindgangi, átið var þvílíkt. Sabína, sem er kennari, greindi mig en auðvitað fá öll börn greiningu í dag. Hún sagði mig vera með athyglisbrest og ég gat alveg fallist á það. Held reyndar að það sé mikið til í því. Mér finnst þessi greiningarárátta samt vera gengin út í öfgar.

|