hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

miðvikudagur, júlí 16, 2008

Efst í huga eftir Ítalíureisu...

- Toblerone með hnetum og rúsínum.
- Trúnó yfir rauðvíni með Leo (71) í eldhúsinu hennar í Geneva. Ómetanlegt.
- Boðið í sveitabrúðkaup Evu og Fúsa, með sambýliskonunni.
- Hve gott það er að vera símasambandslaus.
- Bologna er lítið breytt... Svo þægilegt að labba í nostalgíu og drekka espresso eftir espresso á börum bæjarins.
- Ég held Eva Longoria hafi aldrei borðað Magnum, annars liti hún ekki svona út í auglýsingunum. Hún skyrpir ísnum alltaf út úr sér.
- í ítölsku fríblaði í Róm voru komnir broskarlar við hverja frétt, til að hjálpa fólki að velja lesefni. Ef þetta er þróunin þá getum við alfarið sneitt hjá neikvæðum fréttum af deyjandi fólki og hörmungum. Eru það ekki frábærar fréttir?
- Fyrsti karlinn í sögu ítalsks sjónvarps er um það bil að ráðast að helgu vígi, hann vill verða þula hjá RAI. Honum var lengi vel vísað frá en loks var umsókn hans tekin gild eftir að hann vísaði í jafnréttislög. Held hann sé kynvilltur, og svo er hann Sardi. Og úr því minnst er á jafnrétti. Jafnréttisráðherra Ítalíu er rúmlega þrítug. Hún tók þátt í ungfrú Ítalíu fyrir ellefu árum. Berlusconi veit alveg hvað hann er að gera.
- Það að ítalskar lestar eru seinar og hægar, gerði mér kleyft að lesa bækur, hverja annarri betri; The Age of The Warrior eftir Robert Fisk, Hlustaðu á rödd mína eftir Susönnu Tamaro, The best of American Magazine Writing 2007 og The Sewing Circles of Herat eftir Christinu Lamb.
- Ég undraðist líka, enn og aftur, sýnileika kvenna í ítölsku sjónvarpi, eftir að hafa horft á viðtalsþátt með fimm sveittum karlpungum. Hvar voru konurnar? Ég þurfti ekki að fara langt, þær voru á næstu stöð - Í sundbolum, vaxaðar og litaðar frá helvíti, að dilla sér. Framlag þeirra er metið eftir hæð og umfangi barms, og þá er jafnvel betra ef þær eru vitgrannar. Ef til vill hægt að kalla það brjóstvit?
- Merkilegt að albínóar skuli ofsóttir/eftirsóttir í Kenýa.
- Flug eftir 3 daga, í íslenskt sumar... Skilst á móður minni að blóm beru konunnar dafni vel...

|