hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

þriðjudagur, september 02, 2008



Okkur Möttu...

...finnst að lífið sé að taka okkur í rassgatið. Afsakið orðbragðið. Þegar Mette lagði stund á meistaranám í Árósum fyrir nokkrum árum heimsóttum við Ásdís hana, í Höegh Guldbergsgade. Núna, nokkrum árum seinna, er ég aftur kominn í sömu götu, beint á móti gamla húsinu Möttu og hún víðs fjarri.

Er á tveggja mánaða námskeiði í Blaðamannaháskólanum hér í borg. Besta vinkona mín það sem af er heitir Lotta, samt ekki halta Lotta, svo ég vitni í Lindgren. Lotta er þriggja barna móðir, sérfróð um her og varnir Norðurlandaþjóða, og um það bil að gera sér ljóst að með einlægri og fumlausri framkomu minni, er ég ekki að fara á fjörurnar við hana. Í gær skildi ég 43% af sænskunni hennar en í dag 51%. Við hlæjum bara þeim mun meira.

Hér er stórskrýtinn Finni, kynlegir kvistir, norskur sérfræðingur frá Fiskaren (hmmm), sérfræðingur um ritstíflur og ráð við þeim; hér er töluð blandinavíska og hér er hellingur af fréttafíklum og pennum, heilluðum af Íslandi. Hér eru líka Danir sem hlakkaði í við skipbrot Nyhedsavisens í gær. Það fannst mér undarleg og ástæðulaus hefnigirni. Kúrsinn er á leiðinni til Strassborgar, Lúxemborgar, Brussel, Berlínar og heimsborgarinnar Reykjavíkur, hvað annað. Fyrrum kollegi minn Pálmi Jónasson sat álíka kúrs fyrir fjöldamörgum árum. Þeir í Blaðamannaháskólanum eru enn að tala um leðurbuxurnar hans.

Annars er fósturdóttir mín Jódís flutt til Íslands, og það hryggir mig dálítið.

|