hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

föstudagur, ágúst 19, 2005

Frá því ég bloggaði seinast...

- hef ég lesið fréttir af mannskæðum flugslysum í USA Today um borð í Icelandair þotu, á leið vestur um haf. Viðeigandi.
- fengið hellu í hraðskreiðustu lyftu sem ég hef komið í, á leið upp á 42. hæð.
- rekið augun í og ekki keypt bókina Tíu algengustu brögðin í skák.
- haldið daga mína talda, sitjandi í flugfreyjusæti, í þrumuveðri, ókyrrð og sviptivindum, hringsólandi fyrir ofan JFK-flugvöll. Laug því blákalt að ég væri ekki smeykur og brosti.
- fengið nýja sýn á starf flugfreyja og fundist stemningin hjá þeim aftur í, eins og í hverri annarri vegasjoppu eða fermingarveisla, þar sem maturinn er keyrður út og allt reddast.
- brosað allan hringinn í ljósadýrðinni á Times Square.
- heillast af New York.
- næstum getað eytt heilu kvöldi horfandi út um gluggann á hótelinu mínu í NY; hiti, raki, grenjandi rigning, þrumuveður, háhýsi, gulir leigubílar og neonljós.
- verið réttilega bent á að orðið GAMAN, þegar það kemur fyrir í bloggi, þýðir að bloggarinn hafi komist á.
- farið í gæðagöngutúr með gamalli vinkonu, niður við sjó og Sólfar.
- hugleitt sekúndubrotið þegar dagfarsprútt fólk ímyndar sér svæsið ofbeldi og blóðsúthellingar, í þeim aðstæðum sem það er statt það augnablikið. Er ég kannski einn um að sú mynd poppi stundum upp í hausnum á mér, að ég missi stjórn á mér og gangi í skrokk á fólkinu sem ég er að tala við, ólíklegasta fólki? Átti ég kannski ekkert að segja frá þessu?
- höfum við Litli Lúður, Gulli, verið spurðir ráðlegginga af manni sem var að máta nærbuxur og sundskýlur inni í búð í NY. Aðstæðurnar höndluðum við af festu og skynsemi.
- hlegið að og með konu með parkinson-sjúkdóminn, sem hrósaði happi yfir að vera bara með parkinson en ekki alzheimer, þegar hún skjálfandi bar kaffibollann upp að vörunum. Hún sagðist þó alla veganna muna að hún væri að drekka kaffi.
- drukkið kaffi á Starbucks og étið hamborgara á McDonalds í landi tækifæranna.
- undrast fjölda lögreglumanna á hverju strái í borginni.
- undrast allar viðvaranirnar og leiðbeiningarnar út um allt, um að passa sig að brenna sig ekki á heitu kaffinu, passa sig að detta ekki á blauta gólfinu, sem er nota bene þurrt, passa sig að kafna ekki á samlokunni, passa sig að hafa ekki hátt að óþörfu. Ég er náttúrulega óhæfur til að hafa vit fyrir mér sjálfur...
- skúrað gólf.

Gæti haldið endalaust áfram... Síðar.

|

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Raddlaus en aaaaaalsæll...

...er HHA kominn til landsins eftir 20 klst. í NY. Merkilegt hvað hægt er að gera á svo stuttum tíma, sváfum í fjóra og nýttum hina sextán til hins ítrasta... GAMAN. Ferðasagan bíður betri tíma. Er kominn í vinnu, enn hálfringlaður eftir flugið, skælbrosandi. Síðar.

|