Eigðu góðan dag, rassinn á mér...
Danirnir eru að drepa mig með uppgerðarkurteisi. Mér var öllum lokið á sunnudaginn. Afgreiðslumaðurinn í 7/11 (sem sumir rugla saman við 9/11 ; það er rangt) bað mig að viðskiptum loknum um að eiga góðan sunnudag. Frúin í bakaríinu óskaði mér góðrar helgar áðan, með hnakkanum og rassinum. Hún var búin að snúa sér við þó svo bunan stæði enn út úr henni. Held henni sé skítsama um hvernig helgin mín verði. Hún hefði í það minnsta getað haldið augnsambandi örlítið lengur. - Mitt mottó er nokkurn veginn það að segja ekki eitthvað sem engin meining er á bak við. Ég held því bara kjafti við mína kúnna á barnum, segi takk og bless, segi það reyndar með meiri gleði ef þeir gefa þjórfé. En ég óska engum þess að eiga áfram gott kvöld, eiga frábærar stundir í vinnunni eða eiga góðan dag. Samt er ég kurteis piltur með eindæmum. Uppgerð og sleikjuskapur finnst mér óskemmtilegur.
Svo finnst mér fólk sem talar endalaust og fólk sem labbar hægt á gangstéttum, til ama.
Fann nýja vídd eirðarleysis og leitar í gær. Fannst ég fastur í gráum hversdagsleika og að mig vantaði eitthvað spennandi... Staðreyndin er sú að ég er búin að vera í vinnu í mánuð og í landinu í rúma fimm mánuði. Af þessu má draga þann lærdóm að ég finn fyrir eirðarleysi og ,,kulnun" í nýju starfi eftir fjögurra vikna vinnu, og að eftir sex mánaða búsetu í nýju landi, er kominn tími til að hugsa sér til hreyfings.
Og svo get ég ekki á mér setið, þó svo ég viti að það veki ekki hrifningu einhverra; það verður þá að hafa það, þetta hvílir þungt á mér og ég ætla að segja mína skoðun. Alltaf gaman að góðu drama, þar fyrir utan, og góðum skoðanaskiptum. Þetta er mitt blogg, ég ræð, eins og ég hef einhvers staðar heyrt. Þið ráðið kommentunum, og þar erum við komin að kjarna málsins. - Vinur minn er hættur með kommentakerfi á bloggsíðunni sinni. Af hverju? Jú, hann fékk ekkert nema blammeringar, sagði hann. Og hann hafði ekki undan við að eyða kommentum frá vinum, að ég held, þar sem þau voru ekki að hans skapi. Bloggið hafði ekki verið að skapi sumra vina hans. Þá spyr ég, til hvers eru vinir ef ekki til þess að bera undir þá eitthvað sem skiptir máli, fá ólíkar skoðanir og tala saman? Og getur ekki verið, að ef margir mótmæla skoðun minni, getur þá jafnvel verið að ég hafi rangt fyrir mér? Er ekki meiri ástæða til að hlusta, ef þeir sem mótmæla mér, eru þeim mun fleiri og ég er einn um mína skoðun?
Mér dettur bara í hug, kellingin í Kaupfélaginu heima, sem sagði að það þýddi bara ekkert að selja Matarkex frá Frón, það seldist svo hratt að það væri bara aldrei til. Eða bara pólitíkus sem fer sínu fram þó svo það fylgi honum enginn að máli...
Eitt það skemmtilegasta við blogg finnst mér að fá svörun, ,,fídbakk", á slæmri íslensku. En hvað er ég svo sem að fjasa? Þetta nær ekki til þess og þeirra sem ég vildi gjarnan ná til. Ég er e.t.v. þannig gerður að ég vil alltaf ræða allt ofan í kjölinn. Sú skoðun mín og stefna getur vel verið röng og alls ekki alltaf átt við. Finnst það barnaskapur þegar málum er lokað og fólk vill ekki ræða þau. Þegar slíkt gerist finnst mér það merki um að fólk sé komið í þrot með rök og geti ekki varið skoðun eða málstað.
Hana, þarna hætti ég mér út á hálan ís, sem líklegast er löngu brotnaður og ég kominn á bólakaf. Það er af því ég er svo flippaður og lifi á ystu nöf.
PS. Það mega allir kommenta.
Best að rjúka. Sushi-gerðarkvöld heima hjá Tobbu vinkonu...
Síðar.