hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

föstudagur, júlí 01, 2005

Brá mér...

...á Duran Duran tónleika í gærkvöld, í boði Tröllsins. Góðir. Þeir fluttu meðal annars Wild Boys. Fyrir hátt í tveimur áratugum hlustaði ég líka á Wild Boys, nema þá notaði ég Elnette hárlakk, var með millisítt hár, fjögurra debetkorta frekjuskarð og blettatígurslit gleraugu. Það hefur líka ýmislegt fleira breyst.

Var austur í Vík, á æskuslóðunum, með Ragnheiði vinkonu. Nostalgía og hlátur. Rigning og minningar. Klósettið sem ég læstist inn á í eigin fermingu. Parketlagða holið sem var flennistórt diskó einu sinni, reyndist vera frímerki. Diskókúlan sem hékk í loftinu þá og gerir enn, mátti muna sinn fífil fegri. Kaupfélagið sem ég stal Kalla kanínu úr og vann við vörutalningar í. Íþróttaskúrinn sem ég upplifði fyrsta kossinn í. Sjoppan sem ég eyddi unglingsárunum í. Holóttar göturnar sem ég hef rúntað þúsund sinnum. Steinninn sem ég fékk heilahristing á. Vegurinn sem ég reið þegar reiðskólahesturinn fældist undan mér. Strandavíðirinn sem ég plantaði. Kofinn sem við byggðum. Hjallarof þar sem við áttum kindabú. Rafstöðin þar sem við vorum úti í leikjum... ... ...

Og það var ekki Duran Duran sem við hlustuðum á í bílnum á leið austur og í bæinn, með tvo litla patta afturí. Prumpulagið, hibbidíhæ, svo bergmálar fjöllunum í, ég pompa á bossann, Gutti Gutti... Syngur enn í hausnum á mér, nokkuð gaman.

Sigga systir flaug á vit ævintýranna í morgun.

Er annars að leita mér að klippara. Venjulega fær enginn að klippa á mér hárið nema hann hafi fyrst sofið hjá mér. Mér gæti verið vandi á höndum.

|

mánudagur, júní 27, 2005

Gerið þið...

...ykkur grein fyrir því, að við erum að upplifa nýja tíma (nýjar lægðir) í íslenskri fjölmiðlun?

Þegar ég á dauðar stundir eða er í fríi, borða ég. Ég á ekki að eiga dauðar stundir. Og ég á heldur ekki að eiga frí.

|

sunnudagur, júní 26, 2005

Seinasta færsla...

...verður að teljast sérstaklega einkennileg, í ljósi þess að ég hef varla fengið áfengisdropa inn fyrir mínar varir, síðan ég kom til landsins frá Köben.

Sumarsólstöður búnar. Ekki gott. Stóð ekki upp á fjallstoppi þessa stystu nótt ársins, eins og svo oft áður. Brá út af vananum að kvöldi tuttugasta og fyrsta og fór í bíó með Tobbu á Mr. & Ms. Smith og svolgraði svo í mig Martini Bianco á Oliver.

Fór í sund í dag með Sigga Má. Hann reyndist brúnni en ég. Mun ekki fara aftur í sund með honum fyrr en brúnkusamanburður er orðinn mér í hag. Kepptum í brúnku á menntaskólaárunum; kepptum reyndar í öllu mögulegu. Sumir hlutir breytast aldrei.

Við Matta erum svo ólík. - Hún veit hvenær hún er í fríi og ég veit hvenær ég er í vinnu. Bæði hlökkum við til, hún til að fara í frí, ég til að fara í vinnu.

Hápunktur seinustu viku var líklegast að sitja á rúmstokknum hjá bróður mínum og spúsu hans, nýbökuðu foreldrum, reyndar í þriðja skiptið, og finna nafn á nýfædda dóttur þeirra. Finnst ég eiga svo mikið í henni fyrir vikið... Þau er líka komin með tvö börn, vísitölufjölskyldu, þannig að öll þeirra börn umfram þessi fyrstu tvö, teljast inn í minn barneignarkvóta. Ég á sem sagt nýju dótturina, þriðja barnið. Óskiði mér til hamingju. - Nú vantar mig bara að einhver játist mér svo ég fái Kitchen Aid hrærivél að gjöf.

|