hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

laugardagur, maí 31, 2003

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld. Skrýtið að vera aftur kominn í samband við tölvur eftir útlegðina. Laugardagskvöld og það að mestu óráðið. Ætla að hitta Líf á Ölstofunni á eftir. Svo mun sambýlismaðurinn Þórir líklegast slást í hópinn seinna meir en hann er í innflutningspartýi einhvers staðar úti í bæ. Útskriftin í gær var fín, ógurlega hátíðleg. Hitti m.a. Ægi og Þórunni og var pínufeiminn við Ægi. Þórunn sagði honum nefnilega að ég hefði gert mikið af því að gera geirvörturnar á henni stinnar í rútunni, gælt svona við þær, okkur báðum til ómældrar ánægju en þó aðallega skemmtunar. Honum fannst það dálítið fyndið en samt ekkert svo. Eitt augnablik, það augnablik þegar ég hélt mig sjá hatursglampa í augum hans, hélt ég mig hafa farið yfir strikið en Þórunn blés auðvitað á það enda er það hin argasta vitleysa. Hringferðin var sem sagt gríðarlega skemmtileg, hefði að vísu lært meira og hlegið minna hefðum við Þórunn ekki setið saman en... Og ég get alveg fallist á það Ási minn að Fáskrúðsfjörður er fínn. Það var tekið svo vel á móti okkur þar. Nú get ég m.a.s. gortað af því að hafa troðið upp í Félagsheimilinu á Fáskrúðsfirði, dansandi línudans. Enginn veit sína ævina eins og þar stendur... Seinna um nóttina, um tvöleytið, labbaði ég út í grafreit frönsku sjómannanna, í blankalogni, og það var alveg einstakt. Bærinn steinsofandi og ekki hræða á ferli. Seinustu nóttina á hringferðalaginu, gistum við í Freysnesi í Skaftafelli og gerðum okkur glaðan dag, drakk einhverja fjóra bjóra sem fóru það illa í mig að ég var ælandi og spúandi til hádegis daginn eftir. Stillti mér upp við rútuhornið svo rútubílstjórinn hefði góðan vinkil á mig í hliðarspeglinum og spjó og spjó af krafti. Þessi ferð var eitt skemmtilegasta ferðalag sem ég hef farið í fyrr og síðar. Þarf að segja meira frá því seinna.
Gígja og Ragnheiður komu svo í gær færandi hendi, með rauðvín, fullt af gotteríi og græn forláta stígvél handa verðandi leiðsögumanninum. Takk fyrir það. Fórum út en þær skralla jú ekkert of oft eftir að þær urðu mömmur. Vorum á Vegamótum aðallega til klukkan fjögur. Sambýli okkar Þóris gengur vel. Ætla að hætta að kalla hann konuna mína til að fyrirbyggja allan misskilning. Byrja á Útvarpinu á mánudagsmorguninn, gaman. Góðar stundir.

|

föstudagur, maí 30, 2003

O, ég er meiri aulinn. Var búinn að skrifa hér langt mál um afdrif mín seinustu daga en svo bara allt í einu, hviss, lokaði ég glugganum. Er sem sagt kominn í bæinn, sæll og glaður eftir frábæra hringferð. Er að fara að útskrifast eftir klukkustund. Meira síðar.Sól í sinni.

|