hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

fimmtudagur, september 08, 2005

Bylgjan sagði...

... að það væri hvorki vott né þurrt að finna í New Orleans. Það fannst mér fyndið enda er ég kaldlyndur.

Þórir, gamall vinur, er aftur byrjaður að blogga eftir langt hlé! Krækja á hann hér til hliðar...

|

Jæja...

Þá eru dagarnir í Reykjavík brátt taldir. Engin Sundhöll og ekkert Kaffitár. Ekki lengur hægt að lesa um einkalíf vinanna í fjölmiðlum eða pistla eftir vinina í fjölmiðlum... ekki lengur sem maður rekst á sama fólkið aftur og aftur, á sama kaffihúsinu, með sama ryþmann.

Hlutir til að hugsa um þessa dagana...
- heyrast fótspor ef maður hlustar á skó, á sama hátt og það heyrist í sjónum úr kuðung?
- mikilvægi þess að stoppa og hugsa sig stundum um.
- hvað mmr þýðir.
- námslán.
- af hverju fólk fær stundum sektarkennd eftir ástarmök.
- hvað það er skrýtið að spegla sig í yngra systkini og vera kominn nokkrum árum lengra í þroska.
- húsnæðisreddingar.
- að raunveruleg merking setningarinnar gaman að sjá þig, er í raun slítum samtalinu núna því ég nenni ekki að tala við þig lengur.
- að skot af hveitigrasi á Maður lifandi bragðast eins og grasið sem maður át sem barn.
- að brauðsneið með osti og aromat, hituð í örbylgjuofni, bragðaðist betur í minningunni, rétt eins og staður sem maður fer á til að endurupplifa góða minningu, þá reynast það yfirleitt vonbrigði. Látið því brauðið með aromatinu vera og farið bara einu sinni á lífsleiðinni til Feneyja.
- staðir í heiminum sem maður á eftir að sjá.
- hve hugur manns er stjórnlaus og sífell á autopilot, ef svo má segja.

|

þriðjudagur, september 06, 2005

Gestur Einar og ég

Vaknaði með Gesti Einari. Ósköp ljúft. Þegar hann var farinn tók Orð dagsins og Morgunleikfimi Halldóru við. Rás eitt og tvö eru líklegast mínar útvarpsstöðvar í dag. Man þegar ég einn eftirmiðdaginn í sumar hlustaði á FM í nokkra tíma; vissi ekki hvert ég ætlaði, hlustandi á allt þetta unga fólk svona illa máli farið, það voru allir ekki að fíla eitthvað, þokkalega...

Það er haustrigning á Hvolsvelli. Ég brðaði svo mikinn veislumat hjá mömmu minni í gær að ég reikna ekki með að þurfa að borða aftur fyrr en á föstudag.

Sumarið er búið, komið haust. Gott sumar og viðburðaríkt með góðu fólki. Keilir, Bláa lónið, Dímon, Glymur, Þríhnúkagígur, Þjóðhátíð í Eyjum, New York og meira að segja Viðey. Hverju er ég að gleyma?

Háskólinn í Manchester heldur greinilega að hann fái aðeins greindarskerta nemendur. Handbækur frá þeim eru svo skotheldar að það hálfa væri nóg, nú eða hellingur. Þeir segja mér að koma með teppi því það sé svo kalt. Þeir segja mér að koma með hluti að heiman og að heimþrá sé eðlileg. Þeir segja mér allt um pundið. - Ég er 28 en ekki 8.

Átti langt samtal við stelpu á msn áðan, sem ég veit ekkert hver er. Ég er svo flippaður.

Í gær varð ég hamingjusamur eigandi hreindýrsskinns. Þið getið sem sagt farið að búast við persónulegasta jólakortinu frá mér... Skinnið er mjúkt og fínt að liggja á því ber.

Annars fer þetta blogg að eflast. Gerist það ekki alltaf þegar maður fer út?

Síðar.

|

sunnudagur, september 04, 2005

Hélt ekki að kæmi að þessu...

Hér birtist fyrsta uppskriftin á þessu bloggi, vegna fjölda áskorana...

Fjallahestafiskisúpa

- laukur
- púrra
- paprika
- slatti sveppir
- graslaukur
- hvítlauksrif
Brytjað og látið krauma í ólífuolíu þar til meyrt.

- 1 dós tómatkraftur
- karrý
- fennika
- salt og pipar
Bætt út í .

1 l af fisksoði hellt út í. 1 askja af rjómaosti brytjuð út í. Brytjaðri soðinni ýsu bætt út í. Látið sjóða enn í nokkrar mínútur. Hálfur lítri af rjóma, humri, hörpudisk og rækju skellt beint í pottinn. Fiski- og eða grænmetiskraftur ef vill. Rækjuna á ekki að sjóða áður en gott er að velgja örlítið undir humrinum og hörpudisknum...

|