hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

þriðjudagur, maí 20, 2003

Mamma var að lesa bloggið mitt. Spurði hvað henni þætti. Bara var svarið. Svo mörg voru þau orð. Takk mamma. Einkennilegt samt að pæla í því hver er að lesa þessar hugrenningar og hver er hinn ímyndaði lesandi sem maður ritskoðar allt ofan í. Komst að því í gær að fréttamaður RÚV á Austfjörðum var að lesa bloggið mitt, gaman að því. Svo er sumarfólkið að týnast hér inn í stofnunina, það sker sig svo úr, gaman að fylgjast með því, allir hálfblautir á bak við eyrun og ég líklegast þar með talinn. Svo var ég að heyra að í sumar er væntanleg karlskrifta inn á Fréttastofu Sjónvarps og er það vel; mikið gleðiefni. Breki heitir hann og tekur við af Erlu súperskriftu.
Og áður en það gleymist, orð dagsins er bjagurlegur og er viðhaft um málfar sem er skakkt og bjagað. Lag dagsins er hins vegar lélega lagið með nýja ömurlega myndbandinu með Ber, þar sem Íris hleypur úti í skógi í snjó og er svo komin niður í fjöru að kyssa strák? Lifi steingeld smekkleysan.
Leiðsöguskólinn leggur af stað í hringferðina snemma næsta laugardagsmorgun, á Júróvísjóndaginn. Við munum slá upp Júróvísjónpartýi á einhverjum barnum í Stykkishólmi og vonandi mála bæinn rauðan. Annars er þessi ferð mjög spennandi og það verður örugglega hrikalega gaman. Komum víða við, gistum í Stykkishólmi, á Hólum, á Mývatni, Fáskrúðsfirði og Freysnesi.

|

sunnudagur, maí 18, 2003

Já, kynntist Þorbjörgu, kærustu Vignis í Írafári um helgina. Eftir að ég var búinn að dissa kærastann hennar. Svo var ég kynntur fyrir henni. Tjáði henni að mér þætti hann frekar þéttholda, að hann væri ekkert að gera fyrir mig, gersneyddur kynþokka og þar að auki hefði ég unnið hann margoft á íþróttamótum í gamla daga þegar við vorum báðir landsbyggarlúðar í langstökki á hérðasmótum og svona. En við höfðum bara gaman að.
Og Gulli spáði fyrir mér áðan í tarotspil. Hm, hvað skal segja, ætti líklega að fara út núna í langan göngutúr og melta allt sem hann sagði... Ekkert bólar enn á stjórnmálaskýringum hér á síðunni enda ekki vona á þeim í bráð. Sá að sumir eru með tilvitnanir úr dægurlagatextum og enn aðrir eru með frægakalldagsins sem rambar inn í bókabúðina til bloggarans. Ég gæti hins vegar verið með nýyrði dagsins auk þess sem ég bendi reglulega á góða tónlist sem er áheyrnarinnar virði. Maður er svo mikill íslenskumaður. Nýyrðið mundi auka orðaforða lesenda til muna og gera orðræðu þeirra blæbrigðaríkari í dagsins önn. Orð dagsins er sem sagt ambindrylla og er merking þess ómyndarlegur, óhagvirkur kvenmaður. Nú eða vesalingur til líkama og sálar. Njótið vel.

|

Jæja, helgin var svona miðlungs viðburðarík. Kíkti út á föstudaginn, m.a. á Kaffibarinn en þangað fer maður ekki oft. Hitti Þóri og félaga og Þórir var einmitt búinn að smakka það og kominn í skemmtilega gírinn. Ég hins vegar bragðaði ekki dropa, áfengislaus helgi hjá mér. Ég var orðinn svo óskaplega blautur á tímabili. Var búinn að gleyma hvað það er gaman að hitta fyrrverandi gaura á djamminu, jafnast ekkert á við það. Tala nú ekki um þegar þeir eru á heimleið með núverandi kjötstykki með sér... Fær mann til að muna að maður er bara númer, þá vil ég vera númer sjö því einu sinni var það uppáhaldstalan mín. Þórir kom svo hingað á Hverfisgötuna til okkar Siggu og lognaðist út af í sófanum. Í gærkvöld var ég að springa úr mínu reglulega króníska eirðarleysi og vanalega ráðið við því var auðvitað að fara út að hlaupa sem ég og gerði; í rigningunni, óskaplega gott. Svo sumarlegt. Annars er ég búinn að horfa á fyrstu tvær í Godfather trílógíunni núna um helgina og bæti e.t.v. þeirri þriðju við í kvöld. Þetta er svona skylduáhorf. Dálítið langdregnar reyndar en góðar. Sikileyskar konur eru hættulegri en byssur, það kemur fram þar, m.a.s. ég get vottað það. Skrýtið líka þegar maður er nýbúinn í prófum og hefur allt í einu ekkert að gera, ræður sjálfum sér alveg. Svo á ég líka bara þrjá daga eftir í vinnunni og þá taka ný verkefni við. Er m.a. að fara að leggja stund á mjög intensífan daður- og viðtalstæknikúrs 103 hjá Læðunni, hlakka mikið til, til mikils er að vinna og lærimeistarinn margverðlaunaður. Ég allt að því sakna Læðunnar en hún einmitt brá sér í sauðburð eitthvert lengst út í buskann, út á land.
Sniðugir svona teljarar á síður, ég og mbl.is erum með svipaðan fjölda ,,fletta" sýnist mér fljótt á litið, svona kalt mat og ég get ekki annað en verið sáttur við það. Fór með RB vinkonu á labb í miðbænum í gær, Þorbjörn sonur hennar var með þannig að ég var í svona pabbaleik. Í hádeginu í dag fór ég svo í brunch á Brávallagötuna til Gígju og Gunnars, mjög fínt. Fór þangað á DBS fáknum sem okkur Siggu systur áskotnaðist um daginn. Hún flytur út á morgun og ég hálfkvíði því, við erum svo ágæt saman. Druslan hann Þórir kemur í hennar stað...

|