hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

fimmtudagur, mars 02, 2006

Seinustu 24 klst. í tölum í lífi Brjáns/Kevins...

1 vinur í fýlu út í mig.
1 gott lag sem hljómar í hausnum á mér og ég veit hvorki haus né sporð á.
1 flissandi bókavörður því Brjánn sló í rass bekkjarsystur sinnar.
8 hjólaðir km, í og úr skóla.
3 lesnar skýrslur um mannréttindi og Afganistan.
2 útprentaðar skýrslur.
4 espresso-könnur drukknar.
2 þvegnar þvottavélar.
1 tími þar sem ég fór með hlutverk kínversks mannréttindafulltrúa á Vínarráðstefnunni 1993.
1 mynd í ramma af lítill frænku hengd upp á vegg.
1 símtal frá fullum vini á Akureyri, kl. 4 að morgni.
1 bjór.
3 íslenskar flatkökur með ítalskri hráskinku.
1 pirrandi sambýlingur sem aðeins klæðist svörtu, er með eldrautt henna-litað hár og hefur enga ísskápsrýmisgreind. Enga.
3 þau skipti sem mér hefur þótt ég heimskur.
3 súkkulaðistykki í röð, í kjölfar þess að mér þótti ég heimskur.
1 tilkynning um verkfall breskra háskólakennara í næstu viku.
1 grátandi vinkona með einkunnaspjald í höndunum.
2 kossar, á kinn Laurie.

|

þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Brjánn...

...pantaði flug frá Lundúnum til Kaupmannahafnar þó svo það sé beint flug frá Manchester til Kaupmannahafnar. Það vissi Brjánn ekki. Í lestinni á leiðinni til Lundúna, segir lestarvörðurinn að Brjánn eigi sæti á fyrsta farrými, samkvæmt hans eigin pöntun; hægindastólar, matur og drykkir. Það vissi Brjánn ekki. Sessunaut Brjáns finnst það ógurlega fyndið og hlær upp í opið geðið á honum. - Brjánn er auli.

Kaupmannahöfn var frábær, frábær. Svíf enn á skýi...

Í öðrum fréttum... Frá því Brjánn bloggaði seinast hefur hann...
- gert sér grein fyrir því að hann býr í rangri borg.
- kysst stræti og torg Kóngsins Kaupmannahafnar.
- verið skallaður af betlara með hunda á Strikinu.
- drukkið bjór, daðrað og dansað.
- hugsað með sér að Easyjet hafi tekið allan glans af þeim ferðamáta að fljúga.
- hlustað á Eurvisionlag Sylvíu Nætur. Aftur og aftur.
- knúsað feita frænku.
- verslað eins og vindurinn, með aðstoð personal sjoppers.
- lagt blessun yfir makaval vinar.
- ákveðið að birta ekki helvítis listann þar sem allir segjast hafa tekið verkjalyf eða stokkið í laufblaðahrúgu.
- huggað stúlku.
- verið skelþunnur.
- grátið úr hlátri í mátunarklefa, mátandi niðurþröngar gallabuxur.
- gleymt lykilorðinu á bloggið sitt.
- frætt bekkjarsystkini um hryðjuverk Grænfriðunga gegn Íslendingum.
- hitt mann og annan og átt gæðastundir með fjölskyldu og vinum.
- spillt sannkristinni kanadískri skólasystur og afvegaleitt.
- velt því fyrir sér hversu meðvituð deildin hans er. Hér drekka fáir Coca Cola. Hér drekka menn Fairtrade safa og kaffi til að styðja fátæka bændur, og flestir hafa áhuga á vinnslu lamadýrsullar og efnahagslegum áhrifum hennar á barnmargar fjölskyldur í þriðja heiminum, og það hver þekking fjölskyldunnar er á getnaðarvörnum.
- og yfir höfuð verið með hugann við allt annað en blogg.

|