hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

sunnudagur, mars 11, 2007

Hindurvitni og brigsl
Magnús lögga, Björg norska, Clemens þýski, Róbert 23, Dóra saum, Julie danska, Kam11, Lundis, Osama, Snowdon, Steen, Steiner, Stine, Tom skoski, Uve norski, Ragnheiður Geirs... Ef þið eruð einhver þessara stórmerkilegu karaktera, þá vinsamlegat gefið ykkur fram. Annars hringi ég aldrei í ykkur. Ég hef einstakt lag á að sanka að mér fólki í símann minn.

Takk fyrir afmælisóskirnar, allir saman. Huw hinn velski benti mér á hversu heppinn ég væri að hafa litið út fyrir að vera þrítugur í mörg ár, skellurinn væri þess vegna lítill nú. Afmælisveislan á Keplersgade var villt - það stóð víngúmmí í yngsta gestinum, Jódísi. Foreldrarnir beittu hana Heimlich, af mikilli snilld. Og svo sver ég þess dýran eið að nota ekki orðasambandið að vera á fertugsaldri eða fimmtugsaldri. Finnst það rangt. Önnur tungumál vísa til neðri tugarins, kann betur við það : )

Afmælisbarn dagsins er hins vegar Dagný vinkona í Tokyo. Hún er þrítug í dag og það má vel vera að hún hafi eytt deginum á fæðingardeildinni. Hef enn ekki fengið af því fréttir...

Og mottó dagsins er hið fornkveðna, að tilfinningar séu fyrir aumingja.

Bók dagsins er Snjór, eftir Orhan Pamuk. Annars er þvottadagur á Keplersgade. Sambýliskonan Íris vakti mig með kaffiangan, vöfflum og eggjahræru. Með pesto og gulrótum...

Vissuð þið að vinnstri sinnaðir drekka fitusnauða mjólk en hægrisinnaðir nýmjólk? Og að þeir sem drekka rauðvín borða yfirleitt hollari mat en þeir sem drekka bjór?

|

mánudagur, mars 05, 2007


Hist og her

Veit vel að maður á ekki að blogga í pirruðu skapi, geri það samt : ) Mér er til efs að súkkulaði hjálpi til, kannski ræktin geri það... En ef ég kynni að blóta eins og Kolbeinn Kafteinn, þá mundi ég gera það núna.

Á fimmtudag sveið mig undan táragasi, á föstudag var ég grýttur, í morgun lá við að ég væri handtekinn því tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn fullyrtu að ég sæist kasta steini að lögreglunni, á bandi sem þeir höfðu í sinni vörslu. Ég hélt nú ekki og slapp með skrekkinn, þangað til að þeir hafa samband og fullyrða að þetta sé ég og að mér sé engrar undankomu auðið.

Það jaðrar við að þeir sem ég hef mest samskipti við hér í borg séu leigubílstjórar. Það á ekki að vera svoleiðis, er það? Og þótt ég eigi að heita fluttur, þá bý ég enn í ferðatösku.

Sambýliskona mín syngur alltaf Ó, hve létt er þitt skóhljóð, ó hve lengi ég beið þín, þegar ég geng inn úr dyrunum á Keplersgade. Í gær lék hún svo undir á sílafón. Finnst það voða notalegt. Og svo byrjuðum við Íris saman í gær. Hún spurði mig hvort ég væri ekki bara til, það hélt ég nú. Buðum Kára, Kristínu, Jódísi og Önnu Helgu í mat í gær. Dálítið vanhugsað því á heimili okkar eru til þrír kollar og einn gaffall. Þá er búslóðin eiginlega upp talin. Og það er ekki eins og ég hafi haft tíma til að fara út í búð...

Einn vinur minn er í fimmtán stiga frosti í Kanada, annar sat með te, eitt kvöldið, þrjár mínútur í miðnætti, og beið þess með óþreyju að opnað væri fyrir skattframtöl á netinu.

Speki dagsins er: Það er auðveldara í að komast en úr að losna. Þessu má snúa upp á allan andskotann, hef það fyrir satt. Samt ekki.

|