hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Velkominn heim...

...sagði Bonnie hin bandaríska þegar ég kom til Manchester á föstudaginn eftir 6 vikna fjarveru. Með 18 kg í farteskinu, þar af 8 kg bækur. Er fluttur inn á Stúdentagarðana þar sem ég bý næstu 3 vikurnar. Ég tek rúllustiga heim til mín, það hef ég aldrei gert áður. Annars virka garðarnir dálítið eins og elliheimili, stórhýsi byggð í hring. Hvarflaði að mér að fá mér labbitúr á náttbuxunum á miðnætti í gær, innan þessa hrings, svona eins og amma Lotta gerir á elliheimilinu sínu. Hér er annars allt sem ég þarfnast á 200 fermetrum, Nero kaffihús, rækt, þvottahús, 2 súpermarkaðir, Blockbuster... Er búinn að fjárfesta í regnhlíf svona til að gefa ykkur hugmynd um hverng viðrar. Íslenska sólbrúnkan er sumsé á undanhaldi.

Nú þarf ég BARA að koma mér í lærdómsgírinn. Nú hefst nokkurs konar ritgerðarmaraþon. Búinn að taka til á skrifborðinu, oft. Búinn að demba vatni á tölvuna mína. Búinn að gera flest annað en að setjast niður og einbeita mér að því sem ég ætti að vera að gera.

Ef ég kem ekki heim um miðjan næsta mánuð, þá hef ég verið handtekinn á breskum flugvelli með stóra innrammaða, smekklausa og upplýsta mynd sem hægt er að stinga í samband, af múslimum í Mekka, undir arminum. Mun eiga í mesta basli með að koma henni heim, á þessum tímum hysteríu og svokallaðrar hryðjuverkaógnar. Ég held Al Kaída sé ekki til.

|