
Snökt og eldhúsáhald
Mátti bara til með að birta mynd af þessum álfum. Fékk svo skemmtilegt símtal frá þeim eina nóttina. Eins og reyndar í nótt líka. Frá annarri vinkonu. Vorið virðist fara einstaklega vel í fólk. Allir að slá sér upp og svona...
Klukkan fimm á laugardagsmorgun var ég kjökrandi uppi í rúmi. Þá kláraði ég Flugdrekahlauparann sem ég hafði byrjað á á miðnætti. Langt síðan ég hef lesið svona góða bók, langt síðan það er eitthvað að marka lofið sem maður les á kápunni. Svana bloggaði skælandi um þessa bók um daginn. Ætlaði að lesa hana í desember en komst ekki til þess þá. Mæli með henni. Ljót en falleg saga.
Í upphafi árs keypti ég mér Peugot. Peugot gírahjól, svart, á 40 pund. Karlinn á hjólaverkstæðinu sagði mér í vikunni að ég hefði keypt köttinn í sekknum. Það var mér fyrir löngu ljóst. Gírakerfið er víst antik. Ég er búinn að leggja helvítinu þar sem næsta viðgerð svarar ekki kostnaði. Ég hefði betur keypt mér alvöru svartan Peugot 306 í upphafi árs. Kostnaðurinn hefði verið sá sami.