Seinasta færsla...
...verður að teljast sérstaklega einkennileg, í ljósi þess að ég hef varla fengið áfengisdropa inn fyrir mínar varir, síðan ég kom til landsins frá Köben.
Sumarsólstöður búnar. Ekki gott. Stóð ekki upp á fjallstoppi þessa stystu nótt ársins, eins og svo oft áður. Brá út af vananum að kvöldi tuttugasta og fyrsta og fór í bíó með Tobbu á Mr. & Ms. Smith og svolgraði svo í mig Martini Bianco á Oliver.
Fór í sund í dag með Sigga Má. Hann reyndist brúnni en ég. Mun ekki fara aftur í sund með honum fyrr en brúnkusamanburður er orðinn mér í hag. Kepptum í brúnku á menntaskólaárunum; kepptum reyndar í öllu mögulegu. Sumir hlutir breytast aldrei.
Við Matta erum svo ólík. - Hún veit hvenær hún er í fríi og ég veit hvenær ég er í vinnu. Bæði hlökkum við til, hún til að fara í frí, ég til að fara í vinnu.
Hápunktur seinustu viku var líklegast að sitja á rúmstokknum hjá bróður mínum og spúsu hans, nýbökuðu foreldrum, reyndar í þriðja skiptið, og finna nafn á nýfædda dóttur þeirra. Finnst ég eiga svo mikið í henni fyrir vikið... Þau er líka komin með tvö börn, vísitölufjölskyldu, þannig að öll þeirra börn umfram þessi fyrstu tvö, teljast inn í minn barneignarkvóta. Ég á sem sagt nýju dótturina, þriðja barnið. Óskiði mér til hamingju. - Nú vantar mig bara að einhver játist mér svo ég fái Kitchen Aid hrærivél að gjöf.