hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

sunnudagur, apríl 24, 2005

Raddlaus, rauðeygur, rótkvefaður með ríghósta (skítt með káið)

Ekki árennilegur eða góður til heilsunnar eftir helgina. Lítið sofið en mikið sprellað og unnið.... Fussumsvei.

Lá í baði í klukkutíma áðan. Þyrfti að gera það oftar. Hugleiddi, fór að ráðum Indverjans - sjá fyrri færslu. Samdi meðal annars fyndnustu bloggfærslu allra tíma. Þetta er ekki hún. Man hana ekki. Mér finnst gaman í baði og mér finnst gaman að borða. Svo finnst mér gaman að vera innan um fólk. Held því að góð uppskrift að skemmtilegheitum sé að fara í heitt bað í góðum félagsskap og með fullt af mat...

Frá því ég bloggaði seinast...

- er ég búinn að peppa upp stúlku í strákamálum.
- óska vini sem er að verða flugfreyja, til hamingju.
- borða ætiþistla upp úr niðursuðudós; þeir brögðuðust eins og tennur.
- næstum ákveðið að leggja niður danska konungdæmið og kaþólsku kirkjuna. Tel um tímaskekkju að ræða í báðum tilfellum.
- velt því fyrir mér hvernig ég get fengið litla bróður til að taka faxið af bakinu á sér, honum er slétt sama þó það gægist upp um skyrtukragann að aftan.
- hlakkað til Parísarfarar og gert máttlausa tilraun til að rifja upp menntaskólafrönskuna, dans Paris au velos, ans des passes les autos, dans Paris au velos, ans des passes les autos. Og Pascal est triste ma elle non pleures pas. Þetta er mín franska. Harla nytsamleg.
- snýta úr nebbanum á mér um þremur sentilítrum af grænu hori.

Margrét Þórhildur fær sérinnfluttar franskar sígarettur fyrir sig til Danmerkur, tollar niðurfelldir og ekkert vesen. Tveir pakkar púaðir á dag enda er kerlingin með gulustu tennur norðan Alpafjalla. Hún vaknar um átta, níuleytið á hverjum morgni og snæðir morgunverð við dúkað borð í svefnherberginu. Oftast er það bara harðsoðið egg sem kerlingin étur. Hún borðar aðeins hafragraut þegar hún er í skíðaferð, því hann er svo þungur í maga, alltof þungur fyrir hverdaginn. Hádegisverðurinn er alltaf franskur og þrírétta með víni. Þessu greinir hún sjálf frá í glænýrri viðtalsbók sem eflaust selst eins og heitar lummur. Og skammast sín ekki hætishót. Er ekki hægt að eyða pening í eitthvað gáfulegra en að halda úti kóngum og drottningum, árið 2005?

Síðar, er að sofna fram á lyklaborðið...

|

laugardagur, apríl 23, 2005

Ágúst verður góður, heppna enni...

Var stöðvaður úti á götu í fyrradag, af Indverja með svartan vefjarhött. Hann las áruna mína sem var víst sérlega skær þennan dag. ,,Þú átt eftir að eiga gott líf, fram undan eru góðir mánuðir en þó sérstaklega ágúst. Þú ert með heppið enni og glaðvært. En þú slakar ekki nógu mikið á, þú veður bara áfram og gleymir að hugleiða. Þú ert of eirðarlaus." - Þegar hér var komið sögu stoppaði ég hann, var á leiðinni á stefnumót og fannst hann auk þess vera að finna upp hjólið þegar hann sagði mig eirðarlausan, hann hefði allt eins getað sagt mér að Prinsess Dæ væri dáin. ,,Ég veit ég er eirðarlaus og að Dæ er dáin, það er fakta. En takk fyrir ábendinguna með ágústmánuð. Verð að rjúka."

Nýi páfinn kemur sterkur inn og ætlar að kveða niður kynvillu á Spáni. Hlátur. Gaman.

|

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Er hamingjusamur...

...eigandi Superman nærhalda, þökk sé Kristínu og Kára. Tek mig ágætlega út í þeim, þó svo ég segi sjálfur frá.

Mig vantar áhugamál, fyrir þann litla frítíma sem ég á. Einhverjar uppástungur?

Vangaveltur um það að sumt fólk hefur aldrei nokkurn tímann farið á deit...

Komst á þennan líka brjálaða séns með ungri konu, klukkan níu á mánudagsmorguninn, í vinnunni. Hún bauð mér símanúmerið sitt en það afþakkaði ég. Sagði að hún gæti bara komið aftur seinna. Okkur var ekki skapað nema að skilja, eins og þar stendur. Við Kári bróðir ályktuðum reyndar að hún hefði verið geðveik, blessunin, en hann varð vitni að þessu öllu saman. Hún sagðist ættleidd frá Bangladesh og sagðist enn fremur halda úti eigin sjónvarpsþætti á Köbenhavn Kanal, sem nota bene er klámmyndastöð. Hún hafði áhuga á að gera ferðaþátt á Íslandi með mér?!

HH og Matthea eru á leiðinni til Parísar í byrjun næsta mánaðar, og eiga fríið skilið. Þar verða engir ísbíltúrar heldur rauðvínssull og ostasmakkanir á bökkum Signu, í fylgd Ásdísar, betur þekkt sem frönskumælandi Físa. Spennan magnast... Ég á alltaf eftir að fara í Louvre. Svo hef ég heldur aldrei skrallað í París. Gaman.

Hvað á það að segja mér að lagið More than Words með Extreme minnir Kára bróður á mig og lagið Danielle með Elton John minnir Pétur bróður á mig? Þórir þarf ekkert að kommenta á þetta... Líklegast hugsar svo Matta til mín þegar hún heyrir Mariuh Carey og það er alls ekki gott mál. - Hef liðið vítiskvalir í ræktinni seinustu daga því strákurinn í móttökunni hefur ekki spilað annað en disk með fyrrnefndri Mariuh, aftur og aftur, dag eftir dag. Það er einmitt sama Mariah og lét hafa eftir sér nýverið að mynd sín, Glitter, hefði hjálpað Bandaríkjamönnum að komast yfir sorgina eftir 11. september... : ) Engin gefur sér gáfurnar, segi ég nú bara, eins og mamma hennar Systu sagði alltaf.

Hefndist fyrir smámælta póstkortið sem ég sendi Siggu systur frá Malmö. Fékk frá henni illskiljanleg skilaboð í gær, það er, fðá Þiggu þyðtuð. ,,Þit á Kaffitáði og hugða um hvað ég á eftið að veðða bðún og þyt í þumað", sagði Sigga.

Síðar.

|