hedinnha@hotmail.com +45 29 36 77 08

sunnudagur, apríl 04, 2004

Á fimmtudagsvköld hittumst við strákarnir hennar Fríðu á 22 og svo auðvitað Fríða sjálf og svo slóst Una í hópinn. Þórir og Jóhann voru einmitt báðir á leið til Lundúna morguninn eftir. Ljúft kvöld. Á föstudagskvöldið fórum við Brynhildur út saman. Fórum meðal annars á Hverfisbarinn og hittum Gettu betur stjörnurnar. Það rann upp fyrir mér ljós að ég hef bara skrallað á Ölstofunni seinustu mánuði, þess vegna var ég svona undarlegur á Hverfisbarnum og stirður á dansgólfinu. Hver hefði trúað því? Brynhildur dró sig í hlé og við tók skrall með Camillu, Dögg, Ölmu og Brynju. Flakk á milli staða. Hitti fullt af fólki sem ég hef ekki hitt í langan tíma. Kannski af því ég hætti mér á aðra staði en Ölstofuna. Gríðarlega gaman og ölvun eftir því. Skrall til að verða sex.
Í gærkvöld sáum við Gulli Cold Mountain í bíói. Jude Law svíkur engan. Gulli var reyndar eitthvað sleginn. Sagðist hafa séð pjásuna á Nicole en ég lét það ekkert á mig fá og tók því eins og hverju öðru hundsbiti. Þaðan lá leiðin á Ölstofuna þar sem við Fabio sátum að sumbli fram á nótt. Sigga systir, Tröllið og Læðan, Brynhildur og fleiri litu við. Nú og svo var vinna í morgun. Og þá er Helgarfléttunni lokið.
Birna Anna er með góðan pistil í Tímariti Morgunblaðsins, hún er reyndar alltaf góð. Hún tekur fyrir valkvíða, ég get svo innilega fallist á það að ég kaupi frekar sultu og er ánægður með valið ef það eru bara til tvær tegundir en ekki 20. Úff. Síðar.

|

Áfengiseiningar innbyrtar um helgina eru óteljandi. Er ég kannski ómeðvitað að drekka í mig þol fyrir förina til Lundúna í þessari viku? Ómögulegt að halda fjölda drykkja til haga. Svo er ég kominn með kenningu um þynnku. Hjá mér er hún í öfugu hlutfalli við áfengsmagn; því meira sem ég drekk, því sprækari er ég morguninn eftir. Ef ég hins vegar drekk tvo bjóra eða eitt rauðvínsglas þá er það blússandi vanlíðan. Púff, sem sagt, gaman á fimmtudag, föstudag, laugardag og heilsan góð. Sagan bíður betri tíma. Vakt. Síðar.

|

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Ég datt áðan. Flæktist í snúrum undir vakstjóratölvunni þegar ég var staðinn upp frá henni. Var samt svalur og reis mjög hratt upp...

|

London baby. Búinn að bóka far. Mér finnst rangt af flugfélögum að refsa óákveðnu fólki, sem er lengi að gera upp hug sinn um hvort það ætli út eða ekki, með hærri flugfargjöldum. Er ég verri maður af því ég er óákveðinn persónuleiki?
En samt, London baby innan fárra daga. Þá sjaldan maður lyftir sér upp. Síðar.

|

miðvikudagur, mars 31, 2004

Könnun Gallups á útvarpshlustun kynnt á fundi í hádeginu. Konur hlusta á Bylgjuna, karlar á Rás 2, sem er að eldast. Landsbyggðin hlustar á RÚV, heimsborgin Reykjavík og nágrenni hlustar á Bylgjuna. Annars er fyndið hvernig hlustun meðaljónsins á útvarpsstöðvar er; 0-20 ára hlustar á FM957, 20-40 ára hlustar á Bylgjuna, 40-60 ára hlustar á Rás 2 og 60-80 ára hlustar á Rás 1. Ég hef aldrei verið eðlilegur, vinn á stöðvunum sem þjóna fertugum og upp úr og uppáhaldstónlistarstöðin mín þessa dagana er Stjarnan.
Sá Píslarsöguna, The Passion of The Christ, í Regnboganum í gærkvöld með Möttu og Hlédísi. Hún er góð og gerði mig enn meira afhuga trú og jók á almennt áhugaleysi mitt á trúarbrögðum, sem mér finnast leiðinleg og röng. En hvílíkar blóðsúthellingar. Maður hefur nú séð nokkrar hryllingsmyndir um dagana en þessi sló þeim öllum við. Hélt þeir ætluðu aldrei að hætta að húðstrýkja hann. Og mig langaði mest að fara að skæla þegar þeir negldu naglana í hann. Nema hvað ég gat ekki kreist fram tár. Komst líka að því að sú kristinfræði sem mér var kennd í bernsku er mikið til gleymd. Enda er ég bersyndugur maður.

|

þriðjudagur, mars 30, 2004

Ég heiti Héðinn og er vinnualki. Mér finnst gaman í vinnunni. Hvað eru aftur áhugamál utan vinnutíma?

|

mánudagur, mars 29, 2004

Mig langar að þegar fólk komi inn á bloggið mitt þá byrji lag að hljóma, eins og á síðu Agnars Braga, sem Roald linkar á. U2. Hvaða lag mundi ég hafa? Dagar með Eyjólfi Kristjáns eða Það er komið sumar? Nú eða bara Miles Davis.

|

Bláa lónið í gær var annars ljómandi fínt. Smurðum framan í okkur sæði og gömlum húðflögum eins og lög gera ráð fyrir þegar maður fer í lónið. Vorum ofan í þegar skall á hríðarkóf og það var ógurlega notalegt að sjá ekki út úr augunum fyrir snjóbyl og gufu, ofan í lóninu. Og ekki spillti að þarna var fegurðarsamkeppni Ásdísar Ránar, Ísdrottningin. Það er nú meiri brandarinn. Frumlegt líka að mynda stúlkurnar í Bláa lóninu. En nú hætti ég, líklegast er þetta bara öfund þar sem ég hef aldrei verið kjörinn fegurðarprins.
Fyndið að rekast alltaf á nýtt og nýtt fólk sem les blogg, ólíklegasta fólk.
Föstudagskvöldið varð svona líka ljómandi skemmtilegt. Fólkið hrúgaðist heim á Hverfisgötuna á Spilakvöld. Þórir sýndi á sér nýja hlið. Ég hef nefnilega aldrei spilað við hann áður og það er ekkert víst að ég geri það aftur. Hann gefur Ross og Monicu ekkert eftir þegar kemur að keppnisskapi. Við tókum í typpaspilin og spiluðum Partý og Co. Gulli og Hlédís svindluðu. Enduðum öll úti á skralli. Síðar.

|

Vil benda á nýja bloggara, kaffidverginn. Ágætur piltur alveg.

|

Mér létti svo í morgun því ég var bara alls ekkert stífur. Kannski pínu. Hafði samt búist við því að vera mun stífari.
Lenti nefnilega í aftanákeyrslu í gær, með Gulla og Siggu. Vorum á Gulla bíl í Fossvoginum, að koma úr Bláa lóninu. Þá kom ung stúlka sem dúndraði í rassgatið á okkur þegar Gulli hafði bremsað til að lenda ekki í árekstrinum fyrir framan okkur. Gaman. Löggan spurði Gulla á hvernig dekkjum hann hefði verið. Frá Gúmmívinnustofunni. Skítt með það hvort þau voru sumar- eða vetrar. Ég fékk ágætishöfuðhögg og G og S líka. Ég hef sem sagt löglega afsökun, loksins, fyrir gullfiskaminni, sem var einmitt óvenjuslæmt, nú eða gott, í gærkvöld sem var þá bein afleiðing af höfuðhögginu.
Veit ekki hversu eðlileg viðbrögð það eru en ég fór heim að árekstri loknum og bakaði eplaköku. Gleymdi að vísu að setja í hana kanil. (Höfuðhöggið). Eftir það skruppum við á Slysó. Hjúkkurnar voru hressar og þekktu Fríðu ofurhjúkku sem var því miður ekki á vakt. Eftir það var kökuveisla heima hjá Gulla, úti á landi, í Maríubakkanum. Þórir og Matta bættust í hópinn. Hvernig finnst ykkur annars Matta? : )
Fyrir þá sem vilja vita það, þá er orðið bjart klukkan sex á morgnana. Minn fótaferðartími var sem sagt sex í morgun. Mikið hljóta lundinn, tjaldurinn og lóan annars að vera ringluð í þessum snjó...
Eldað með Elvis á laugardag með Þóri og Camillu o. fl. Bjóst við meiru en samt ágætt. Annars rólegheitahelgi. Síðar. Vinna.

|