Til hamingju með Konudaginn stelpur, allar saman, nær og fjær.
Alma sæta, Alma sæta, Alma sæta, bara svona til að tryggja mér hana áfram í lesendahópnum. Fólk hlustar endalaust á þig ef þú talar um kosti þess og það sjálft...
Ég er að drukkna í hori og ætti í raun bara að vera heima hjá mér en ekki í vinnunni, er hálflasinn. Hvítlaukur og lýsi í kvöld. Það bætti ekki úr skák að nágranni okkar Siggu systur var með partý í nótt, þó svo ég hafi reyndar sofið eins og steinn. Held maður ætti að skríða oftar upp í fyrir miðnætti.
Í kvöld er Panna en mér er það hulin ráðgáta hver er raunverulegur handhafi Pönnunnar, veit það einhver? Tilhlökkunin er talsverð. Jói og eða Eyþór segjast vera að fara í partý til Kidda hárs. Takiði Tavs með ykkur. Gaman.
Er Kaupmannahöfn líka svona lítil eins og Reykjavík? Sjórinn er víst fullur af fiskum en vandinn er bara sá að Ísland er lítið kúlufiskabúr með ferskvatni og dælu til að halda gúbbíunum þremur lifandi. Búrið er það lítið að þeir muna eftir öllu, hringurinn sem þeir synda er ekki nógu stór til að gleyma. En þeir synda til að gleyma. Þeir þekkja samt alla hina gúbbí-fiskana í búrinu. Í því er líka ein hauskúpa og ein vatnajurt.
Tíkin hans Bush, Spot, er dauð, 14 ára að aldri. Hvíta húsið sendi frá sér yfirlýsingu þar sem segir að Bush -fjölskyldan sé harmi slegin yfir fráfalli tíkarinnar. Ég nota tækifærið og votta þeim mína innstu samúð á þessum erfiðu tímum.
Og varðandi Osama, einhver snillingurinn hvíslaði því að mér að hann væri löngu fundinn. Bush liggur bara á honum og þykist draga hann upp úr holu tveimur vikum fyrir kosningar. Vitiði til. Kenningin finnst mér góð.
Mér finnst birtan góð og nú birtir sjö mínútum fyrr með hverjum morgninum og það er næstum enn bjart þegar maður fer úr vinnu. Gott mál. Það er alltaf afrek að lifa af og þreyja íslenskan vetur. Síðar.